Íslenskur hlutabréfamarkaður tók ekki vel í stöðvunina á viðskiptum með bréf Icelandair í morgun, en stöðvunin var að beiðni Fjármálaeftirlitsins.
Hlutabréf í 16 af 17 skráðum félögum á markaði, að Icelandair undanskildu, hafa fallið í verði. Engin viðskipti hafa orðið á bréfum Sjóvá og því hefur gengi félagsins ekki hreyfst neitt.
Hlutabréf í Skeljungi hafa fallið um 4,05%, Eik um 3,97%, Origo um 3,26% og Arion banka um 3,1%, svo nokkur dæmi séu tekin.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði í samtali við mbl.is að fastlega mætti búast við tilkynningu frá Icelandair í dag en ljóst er að fjárfestar kunna ekki vel við það óvissuástand sem nú ríkir.