Verði af kaupum Loftleiða Icelandic á 51% hlut í ríkisflugfélaginu Cabo Verde Airlines (CVA) er ætlunin að búa til tengimiðstöð sem myndi flytja flugfarþega frá SV-Evrópu til S-Ameríku og V-Afríku til N-Ameríku með millilendingu á eyjunni Sal á Grænhöfðaeyjum.
Flugfélagið gæti m.a. bætt þjónustu við íbúa í milljónaborgum í norðurhluta Brasilíu og stytt ferðatímann á milli Bandaríkjanna og áfangastaða í Afríku.
CVA er agnarsmátt flugfélag og rekur í dag aðeins tvær farþegaþotur. Verður búið að fjölga þotunum upp í fimm næsta sumar.
Áhættugreining gefur tilefni til bjartsýni enda pólitískur stöðugleiki og lítil spilling á Grænhöfðaeyjum. Þar viðrar líka vel allt árið um kring og hvirfilbyljir sjaldgæfir. Heimamenn eru vinveittir Íslendingum og muna enn eftir togaranum Feng sem sendur var til eyjanna vegna þróunaraðstoðarverkefnis, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.