Viðskipti með hlutabréf Icelandair hafa verið stöðvuð í Kauphöllinni. Ekki liggur fyrir ástæða að baki þessara ákvörðunar, en það sem af er degi hafa bréf félagsins hækkað um 1,88% í tæplega 25 milljón króna viðskiptum.
Um helgina var greint frá því að Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group hefði ásatm íslenskum fjárfestum gert bindandi kauptilboð í 51% hlut í ríkisflugfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Þá kom fram í Morgunblaðinu í morgun að félagið ætli sér að nota íslenska módelið og ætlunin sé að búa til tengimiðstöð á eyjunum fyrir flugumferð yfir Atlantshafið, svipað og gert hefur verið hér á landi.
Uppfært 10:54: Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinn, segir í samtali við mbl.is að tekin hafi verið ákvörðun um að stöðva viðskiptin eftir beiðni frá Fjármálaeftirlitinu. Hann segir að fastlega megi gera ráð fyrir tilkynningu frá Icelandair síðar í dag. Páll sagðist að öðru leyti ekki geta tjáð sig um málið.
Uppfært kl 12:03: Í tilkynningu á vef Fjármálaeftirlitsins segir að ákveðið hafi verið í morgun að stöðva viðskipti með fjármálagerninga Icelandair group tímabundið. Sú ákvörðun hafi verið tekin til að vernda jafnræði fjárfesta.
Þá hefur Icelandair sent frá sér tilkynningu varðandi hluthafafund sem halda á 30. nóvember, en á dagskrá fundarins er tillaga um að samþykkja kaup félagsins á WOW air. Segir í tilkynningunni að í kaupsamningi séu ýmsir fyrirvarar sem þurfi að uppfylla, en miðað við stöðu málsins í dag telji Icelandair ólíklegt að allir fyrirvarar verði uppfylltir fyrir þann tímapunkt.