Icelandair segir ólíklegt að allir fyrirvarar sem eru í kaupsamningi félagsins vegna kaupa á WOW air verði uppfylltir fyrir hluthafafund Icelandair sem halda á 30. nóvember. Á dagskrá fundarins er tillaga um að samþykkja kaup félagsins á WOW air.
Segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar að í kaupsamningi séu ýmsir fyrirvarar sem þurfi að uppfylla, en miðað við stöðu málsins í dag telji Icelandair ólíklegt að allir fyrirvarar verði uppfylltir fyrir þann tímapunkt.
Viðskipti með bréf Icelandair voru stöðvuð í morgun að beiðni Fjármálaeftirlitsins. Segir Fjármálaeftirlitið í tilkynningu að sú ákvörðun hafi verið tekin til að vernda jafnræði fjárfesta.