Bílaframleiðandinn General Motors greindi frá því í gær að hafin væri mikil endurskipulagning á allri starfsemi hans. Meðal þess sem fram kom var að framleiðslu verður hætt í fimm verksmiðjum í Norður-Ameríku og starfsfólkinu sagt upp störfum. GM hyggst fækka í starfsliði sínu um 15% á heimsvísu. Þar af mun um fjórðungur stjórnenda fyrirtækisins missa vinnuna.
Í frétt CNN um málið segir að þetta verði fyrstu stóru skrefin sem stigin verða hjá hinu aldagamla fyrirtæki GM til endurskipulagningar. GM, sem áður framleiddi mikla bensínháka, hefur breytt um stefnu og ætlar að einbeita sér að annars konar bílum, m.a. rafbílum.
Með þessum aðgerðum hyggst GM spara um 6 milljarða dollara á ári frá árinu 2020. Meðal þess sem stefnt er að er að endurnýja þá tækni sem notuð er til framleiðslunnar svo það taki styttri tíma að framleiða hvern bíl.
Í yfirlýsingu sem GM sendi frá sér í gær kemur fram að starfsstöðvum í Detroit, Ontario, Ohio, Maryland og Michigan verði lokað. Þar voru framleiddir bílar sem í dag njóta ekki sömu vinsælda og áður, m.a. Chevrolet Volt, Impala og Cruze, Buick LaCrosse og Cadillac CT6 og XTS. Þessir bílar verða nú ekki lengur framleiddir. Þá voru framleiddar vélar og fleira í þessum verksmiðjum sem og í einni þeirra vörubílar. Þeirri framleiðslu verður einnig hætt en vörubílar þessir er nú þegar framleiddir í verksmiðju fyrirtækisins í Mexíkó.
Á næsta ári stendur til að loka fleiri verksmiðjum og þá utan Norður-Ameríku, m.a. í Suður-Kóreu.
Þessar breytingar munu kosta um 8.000 fasta starfsmenn vinnuna og hafa áhrif á störf um 6.000 til viðbótar.