Lögfræðilegt álit, sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri vísaði til um helgina í tengslum við mál Samherja, var munnlegt. Már sagðist hafa rætt um að setja málið í sáttaferli en samkvæmt lögfræðiáliti mátti það ekki.
Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa Seðlabankans við fyrirspurn mbl.is.
Hæstiréttur staðfesti fyrr í mánuðinum dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl í fyrra um að felld skyldi úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyrirtækið Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum.
„Okkur ber að kæra, við uppfyllum það, ef rökstuddur grunur er; við eigum ekki að leggja mat á það hvað er best fyrir okkur. Þetta er bara ótvíræð skylda,“ sagði Már í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag.
Már sagði enn fremur að þegar hann spurði hvort ekki væri hægt að setja svona mál í sáttaferli hafi verið kallað á hæstaréttarlögmann sem sagði að það mætti ekki; þá væri hann að brjóta lögin. Honum hafi því borið að kæra þótt aðeins lægi fyrir grunur um brot.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í samtali við Morgunblaðið að hann efist um að Már hafi nokkurn tímann íhugað að fara með málið í sáttaferli. Samherji undirbýr nú skaðabótamál á hendur Seðlabankanum, sem Þorsteinn telur hafa rekið málið gegn Samherja af illum vilja.