Fjármálaeftirlitið minnir á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lífeyrissjóða í frétt á vefsíðu sinni. Fréttin kemur í framhaldi af því að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, velti upp þeim möguleika í Kveik á Rúv að beita áhrifum verkalýðshreyfingarinnar innan lífeyrissjóða til að knýja á um kjarasamninga.
„Lífeyrissjóðir veita viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts og lýtur starfsemi þeirra að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris,“ kemur fram á vef Fjármálaeftirlitsins.
Þar segir enn fremur að lífeyrissjóðum sé óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná framangreindum tilgangi. Stjórn lífeyrissjóðs setur honum fjárfestingastefnu og við þá vinnu ber að hafa hagsmuni allra sjóðsfélaga að leiðarljósi.
Fjármálaeftirlitið bendir á að það hafi, samkvæmt lögum, eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Samkvæmt lögum um hlutafélög segir meðal annars:
„Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.“
Fjármálaeftirlitið telur að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem að framan var lýst.