Risavaxinn jólamarkaður netverslana

Sara Björk Purkhús, Olga Helena Ólafsdóttir og Eyrún Anna Tryggvadóttir …
Sara Björk Purkhús, Olga Helena Ólafsdóttir og Eyrún Anna Tryggvadóttir standa fyrir jólamarkaði netverslana í Víkingsheimilinu um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

75 netverslanir munu sameinast undir einu þaki um helgina á jólamarkaði netverslana. Markaðurinn er sá stærsti sem haldinn hefur verið hér á landi þar sem einungis netverslanir koma saman. Vinkonurnar Olga Helena Ólafs­dótt­ir, Eyrún Anna Tryggva­dótt­ir og Sara Björk Purk­hús standa að markaðinum en all­ar reka þær sín­ar eig­in net­versl­an­ir.

Þetta er fjórði markaðurinn sem vinkonurnar standa fyrir. „Þó að við séum búnar að gera þetta áður er samt mikil spenna í loftinu,“ segir Olga Helena. Hugmyndina fengu þær fyrir rúmu ári þegar þær voru nýbúnar að stofna sínar eigin netverslanir.

Þrettán verslanir tóku þátt í fyrsta markaðnum en í haust voru þær 73. Jólamarkaðurinn verður með svipuðu fyrirkomulagi og haustmarkaðurinn, en örlítið stærri. „Það bættust við nokkrir básar undir lokin og verða þeir 75 í heildina, 28 litlir og 47 stærri,“ segir Olga Helena.

Markaðurinn verður haldinn í Víkingsheimilinu í Fossvogi og verður opinn milli klukkan 11 og 18 bæði laugardag og sunnudag. Yfir 6.300 manns hafa sýnt markaðnum áhuga á Facebook og tugþúsundir hafa séð viðburðinn. Sannkölluð jólastemning verður á markaðnum og munu jólasveinar kíkja í heimsókn á sunnudeginum. Þá munu Humarvagninn og Vöffluvagninn sjá til þess að enginn fari svangur heim.

Lista yfir allar netverslanirnar 75 má finna á Facebook og meðal vara sem eru í boði á markaðnum má nefna heim­ils-, snyrti-, hár-, heilsu-, barna-, um­hverf­is-, gjafa- og íþrótta­vör­ur.

Frá haustmarkaði netverslana í Víkingsheimilinu í september. Jólamarkaður netverslana fer …
Frá haustmarkaði netverslana í Víkingsheimilinu í september. Jólamarkaður netverslana fer fram um helgina og verður hann með svipuðu sniði, en örlítið stærri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi netverslana á biðlista eftir bás

Olga Helena segir mikinn áhuga hjá eigendum netverslana að taka þátt í pop-up markaði eins og jólamarkaðinum og þurftu fjölmargar verslanir frá að hverfa þar sem einfaldlega var ekki pláss fyrir fleiri. „Skráningin hófst í haust og fylltist á nokkrum dögum og stefnan er því að halda kannski tvo jólamarkaði á næsta ári,“ segir hún. Eftir því sem nær dregur markaðinum hafa Olga Helena, Eyrún anna og Sara Björk fengið ótal fyrirspurnir frá eigendum netverslana um hvort hægt sé að vera með bás. 

Áhuginn er einnig mikill hjá viðskiptavinum. Á markaðnum í haust myndaðist biðröð fyrir utan Víkingsheimilið um morguninn og hálfgert öngþveiti myndaðist á bílastæðinu. Til að koma í veg fyrir það munu nokkrir starfsmenn stjórna umferð á bílastæðinu og aðstoða fólk við að finna bílastæði. „Aðgengið verður betra en í haust,“ segir Olga Helena.

Tilvalin tímasetning fyrir jólagjafainnkaup

Upphaf jólaverslunar er óumdeilanlega farið að færast framar í dagatalinu. Guðmund­ur Magna­son, fram­kvæmda­stjóri net­versl­un­ar­inn­ar Heim­kaupa, sagði til að mynda í samtalið við mbl.is fyrr í mánuðinum að alþjóðlegur söludagur netverslana, dagur einhleypra (e. Singles day) markaði nú upphaf jólaverslunar á meðan aðrir markaðssérfræðingar vilja meina að jólaverslunin hefjist formlega með Svört­um föstu­degi (e. Black Fri­day) og Net­mánu­deg­in­um (e. Cy­ber Monday).

Olga Helena segir að nýliðnir afsláttardagar muni líklega ekki hafa áhrif á aðsóknina á jólamarkaðinn og að fyrsta helgin í desember sé góð tímasetning til að byrja jólagjafakaupin af alvöru.

„Fólk vill geta komið og séð, skoðað og snert vöruna áður en það kaupir hana. Það er líka svo gott að geta komið á einn stað og klárað allar jólagjafirnar á sama stað. Þarna verður fjölbreytt vöruúrval og flestar verslanir verða með tilboð eða afslætti og hægt er að gera góð kaup,“ segir hún.

Ýmislegt fallegt í jólapakkann verður á boðstólnum á jólamarkaði netverslana …
Ýmislegt fallegt í jólapakkann verður á boðstólnum á jólamarkaði netverslana um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Leggja 1.350 fermetra af teppaflísum

Undirbúningurinn gengur vel en Olga Helena segir að óneitanlega fylgi því smá stress að skipuleggja svona stóran markað. „Sérstaklega þar sem við fáum Víkingsheimilið ekki afhent fyrr en á föstudaginn og við sjáum sjálfar um að leggja gólfefni og merkja þar sem básarnir eiga að vera.“ Mesta vinnan felst því í að leggja 1.350 eins fermetra teppaflísar á gólfflötinn, en Olga Helena segir að þær séu reynslunni ríkari frá síðasta markaði.

Þær eru einnig forvitnar um hversu margir munu leggja leið sína á jólamarkaðinn og hefur Olga Helena því fjárfest í talningavél sem verður við innganginn. Vélina pantaði hún að sjálfsögðu á netinu. „Það verður fróðlegt að sjá hversu margir munu koma, það er erfitt að gera sér grein fyrir því. Það er eins gott að teljarinn standi sig,“ segir hún og hlær.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um Jólamarkað netverslana.  

Vöruúrvalið á jólamarkaðinum verður fjölbreytt, allt frá barnavörum til heimilis- …
Vöruúrvalið á jólamarkaðinum verður fjölbreytt, allt frá barnavörum til heimilis- og gjafavara. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK