Tuttugu manns var sagt upp störfum í álveri Norðuráls á Grundartanga. Þetta staðfestir Sólveig Kr. Bergmann, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, í samtali við mbl.is.
„Framleiðslukostnaður hefur aukist á undanförnum mánuðum og innlendur kostnaður hefur auðvitað hækkað líka. Þannig að það þurfti að grípa til hagræðingar. Uppsagnirnar ganga þvert á svið og deildir,“ segir Sólveig enn fremur. Fundað var með viðkomandi starfsmönnum hverjum fyrir sig og tilkynning send þess utan á alla starfsmenn álversins.
Sólveig segir að slíkar ákvarðanir séu aldrei teknar léttvægt. Um sé að ræða óyndisúrræði. „Þetta gerir enginn að gamni sínu.“ Spurð hvort einhverjar frekari uppsagnir séu í kortunum segir hún engar ákvarðanir hafa verið teknar um slíkt.
Vísir greindi fyrst frá.