Alls fá 237 starfsmenn Airport Associates (APA) á Keflavíkurflugvelli, stærsta þjónustuaðila WOW air, sent uppsagnarbréf. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta. Í morgun var greint frá því að fallið hefði verið frá kaupum Icelandair Group á Wow air. Þetta var sameiginleg niðurstaða beggja aðila.
Fundur með starfsmönnum APA hófst kl. 16.15 í dag þar sem þeim er greint frá þeirri ákvörðun og farið yfir stöðu mála.
Flestir starfsmannanna eru í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis en einnig í Verslunarmannafélagi Suðurnesja, að því er segir í fréttinni.
Sigþór K. Skúlason, forstjóri Airport Associates, segir í samtali við Víkufréttir, að hann harmi að það þurfi að grípa til svo róttækra aðgerða. Menn vonist til að geta afturkallað þessar uppsagnir sem fljótt sem auðið er.
Þá segir Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, að fólk sé í áfalli. Þetta sé stærsta hópuppsögn síðan bandaríska varnarliðið fór fyrir rúmum áratug.