„Þeir hafa leyfi til að sækja um vörur eins og hver annar birgir,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til þess að verslunarrisinn Costco hefur nú fengið leyfi til að selja áfengi undir merki sínu Kirkland Signature í verslunum Vínbúðarinnar.
Komu nokkrar tegundir í sölu í byrjun þessa mánaðar og er von á fleiri vörum á næstunni.
Alls má nú finna sex tegundir af Kirkland-víni í Vínbúðunum. Er um að ræða kampavín, freyðivín, margarítablöndu, hvítvín, rauðvín og romm, en vínið kemur frá Frakklandi, Ítalíu, Bandaríkjunum og Spáni. „Þessar vörur eru nú þegar komnar í sölu og svo eru einhverjar tvær til þrjár tegundir til viðbótar sem eru í ferli,“ segir Sigrún Ósk.