Meiri áhætta við kaupin hafði áhrif

mbl.is/Eggert

Tvennt gerði það einkum að verkum að ekkert varð af kaupum Icelandair Group á flugfélaginu WOW air að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group. Fyrir það fyrsta hafi ekki verið útlit fyrir að hægt yrði að uppfylla alla fyrirvara í kaupsamningnum og hins vegar hafi komið í ljós að áhættan af því að kaupa WOW var meiri en talið hafi verið. Tilkynnt var um það í morgun að ekkert yrði af kaupum Icelandair Group á WOW air.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. Ljósmynd/Icelandair Group

„Við settum upp ákveðna viðskiptaáætlun þegar við skrifuðum undir kaupsamninginn og vorum með ákveðnar forsendur þar. Síðan fengum við okkar ráðgjafa til þess að skoða málið með okkur og niðurstaðan er sú að áhættan við verkefnið og fjárfestinguna er meiri en við gerðum ráð fyrir. Það spilar líka inn í. Þannig að það er þetta tvennt, fyrirvararnir og meiri áhætta við fjárfestinguna,“ segir Bogi Nils enn fremur í samtali við mbl.is.

Spurður hvort málið sé þar með algerlega út af borðinu af hálfu Icelandair Group segir Bogi Nils svo vera eins og það sjái við félaginu. Spurður hvort engar líkur séu þá á því að þráðurinn verði tekinn upp á nýjan leik segir hann: „Mér þykir það mjög ólíklegt.“ Vísar hann til þess að Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, hafi sagst vera í viðræðum við aðra um kaup á félaginu „Þá myndi Samkeppniseftirlitið aldrei samþykkja okkur sem kaupendur.“

Hlutabréfaverð í Icelandair Group hefur lækkað mikið í kjölfar frétta af því í morgun að ekkert yrði af kaupunum á WOW air. Aðspurður segir Bogi Nils að það komi ekki á óvart. „Markaðurinn hreyfist auðvitað alltaf talsvert við svona stórar fréttir, hann hreyfðist upp á við þegar tilkynnt var um kaupin og svo niður núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK