Segja þurfti upp 20 starfsmönnum í álveri Norðuráls á Grundartanga í fyrradag en um er að ræða 3% af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins hér á landi. Ástæður uppsagnarinnar má rekja til innlendra jafnt sem erlendra kostnaðarþátta.
Erlendu þættirnir snúa að óhagstæðri verðþróun á álverði sem hefur lækkað að undanförnu á meðan framleiðslukostnaður hefur aukist.
„Við sjáum eftir þessum 20 starfsmönnum sem sumir hverjir hafa starfað hér í langan tíma, í allt að 20 ár. Við þurftum að hagræða með ýmsum hætti og þetta var eitt af því sem þurfti að gera,“ segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Spurður um helstu ástæður uppsagnanna segir Ragnar: „Við sjáum að hráefnaverð hefur hækkað verulega á þessu ári. Síðan erum við líka að horfa á langtímaþróun í innlendum kostnaði sem hefur einnig hækkað,“ segir Ragnar en fyrirtækið kaupir þjónustu af mörgum þjónustuaðilum innanlands. Aðspurður vildi hann ekki greina nánar frá stærstu innlendu kostnaðarliðunum. „Þetta sígur allt í þegar allt er lagt saman,“ segir Ragnar.
Til þess að framleiða ál þarf fyrst og fremst tvö hráefni sem keypt eru frá útlöndum. Annars vegar er um að ræða súrál og hins vegar rafskaut. Verð á þessum tveimur hráefnum hefur hækkað umtalsvert á árinu og á móti því hefur verð á áli lækkað töluvert síðustu vikur eftir ágætan gang á þessu ári. Meðalverð á tonni af áli á þessu ári er rúmlega 2.100 bandaríkjadalir sem er um 7% hærra en meðalverð síðasta árs sem nemur 1.969 dölum, en í dag stendur álverð í 1.913 dölum á tonnið.
Sjá fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út í gær.