Fjárfestingafélagið Indigo Partners sem nú hyggst festa kaup á hlut í WOW air var stofnað með það að markmiði að stofna til reksturs og fjárfesta í rekstri flugsamgangna og tengdum greinum. Þá pantaði félagið 430 flugvélar frá Airbus í fyrra, stærsta pöntun í sögu félagsins.
Félagið sem hefur starfsstöð sína í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum var af meðal annars stofnað af William (Bill) Augustus Franke árið 2003 og er hann jafnframt stjórnandi félagsins.
Bloomberg sagði frá því í fyrra að Franke sé sjálfkrýndur konungur lággjaldaflugferða og að hann hafi sérhæft sig í rekstri slíkra flugfélaga. Er Franke sagður hafa varið síðustu árum í að leita leiða til þess að forðast hækkandi rekstrarkostnað sem hann nefnir „veginn til helvítis“.
Franke sem er fæddur árið 1937 og útskrifaðist með BA í sagnfræði frá Stanford-háskóla árið 1959 og gráðu í lögfræði frá sama skóla árið 1961, hefur á ferli sínum meðal annars gegnt stöðu forstjóra American West Airlines, stjórnarformanns Tiger Airways og Spirit Airlines.
Indigo Partners er nú stærsti hluthafi í Tiger Airways sem er með bækistöðvar í Singapúr og Spirit Airlines, á Flórída. Fyrirtækið er einnig stór hluthafi í í Wizz Air, Frontier Airlines, Volaris Airlines í Mexíkó og JetSMART í Síle.
Í nóvember í fyrra tilkynnti Franke, sem stjórnandi Indigo Partners, ásamt fulltrúum flugvélaframleiðendans Airbus á flugsýningunni í Dúbaí að fyrirtækin hefði skrifað undir stærsta kaupsamning sem Airbus hefur nokkurn tíma gert.
Var fest kaup á 430 flugvélum og var verðmiðinn um 50 milljarðar Bandaríkjadala, andvirði rúmlega 6 þúsund milljarða íslenskra króna. Vélarnar eru af ýmsum gerðum Airbus-véla og munu þær skiptast milli WizzAir, Volaris Airlines og Frontier Airlines.