Birgir S. Bjarnason hefur vikið tímabundið úr stjórn Símans, en tilkynning þess efnis barst Kauphöllinni nú í dag. Í tilkynningunni kemur fram að ástæðan sé persónulegt mál sem sé til meðferðar á hendur honum fyrir dómstólum og óskar hann þess að víkja meðan málið er til lykta leitt.
Birgir var ákærður af embætti héraðssaksóknara í september fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem framkvæmdastjóri félags, sem nú er afskráð, ekki staðið skil á staðgreiðslu upp á samtals tæplega 25 milljónir króna á árunum 2015 til 2017.
Auk þess að sitja í stjórn Símans hefur Birgir setið í stjórn Félags atvinnurekenda, um tíma sem formaður, en hann hefur jafnframt vikið úr stjórn þess félags.