Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar er erfið í því umhverfi sem hún býr við. Ekki er nóg með að sendingarkostnaður, bæði innanlands og til annarra landa sé hár í öllum samanburði, heldur er sendingarkostnaður af póstsendingum sem hingað berast frá Kína og öðrum þróunarríkjum, niðurgreiddur.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu. Niðurgreiðslan byggir á því að í alþjóðlegum póstsamningi, sem Ísland er aðili að, er Kína enn flokkað sem þróunarland.
„Nú hefur komið í ljós að það umsýslugjald sem Íslandspóstur rukkar til að mæta kostnaði við sendingar frá Kína, er mun lægra en á hinum Norðurlöndunum, eða 595 krónur á sendingu. Norski pósturinn rukkar um 2.400 krónur í umsýslugjald á hverja sendingu og í Svíþjóð er sambærilegt gjald um 1.100 krónur,“ kemur fram í tilkynningunni.
Þar segir enn fremur að þessi gjöld í nágrannaríkjunum endurspegli afstöðu þarlendra aðila að láta innlenda neytendur ekki niðurgreiða pakkasendingar að utan. Slíkur kostnaður, eða sem næst raunkostnaði, sé þess í stað borinn af kaupanda hverju sinni.
„Hið lága umsýslugjald sem Íslandspóstur rukkar fyrir þjónustu sína, er til þess fallið að auka enn á þá ójöfnu samkeppnisstöðu sem hér ríkir. Gjaldið er óeðlilega lágt hvernig sem á málið er litið. Fyrst póstþjónustufyrirtækjum á hinum Norðurlöndunum er heimilt að taka svo hátt umsýslugjald sem raun ber vitni, til að standa undir veittri þjónustu hverju sinni, hlýtur Íslandspósti að vera heimilt, ef ekki skylt, að gera slíkt hið sama,“ segir í tilkynningunni.
Með því að hækka gjaldið ætti samkeppnisstaða innlendrar netverslunar að batna og einnig ætti að vera hægt að minnka mikinn rekstrarhalla sem er á starfsemi Íslandspósts.