Reykjanesbær mun að öllum líkindum ná undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrr en upphafleg aðlögunaráætlun gerði ráð fyrir, að því er fram kom í máli Kjartans Más Kjartanssonar bæjarstjóra á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem lauk nú undir kvöld.
Í vor kom fram að skuldaviðmið Reykjanesbæjar hafði lækkað úr 208,5% niður í 189,55%. Þá var gert ráð fyrir því í aðlögunaráætlun fyrir árin 2017 til 2022 að Reykjanesbær næði 150% skuldaviðmiði árið 2022.
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2020-2022 voru samþykktar 10-0 á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem hófst síðdegis.
Fram kemur í tilkynningu frá bænum að skilvirk fjárhagsstjórn, aðhald í rekstri, hagstæð ytri skilyrði, auknar tekjur og breyttar reglur um útreikning skuldaviðmiðs séu meðal þess sem valdi því að hraðar gangi að nálgast skuldaviðmiðið.