Arion banki opnar afgreiðslu við Hagatorg klukkan 9 í fyrramálið eftir gagngerar endurbætur á húsnæði bankans.
Afgreiðslan í Vesturbænum verður með svipuðu sniði og í Kringlunni og Garðabæ, að því er segir í tilkynningu.
Flestöll hefðbundin bankaþjónusta verður aðgengileg við Hagatorg. Sem dæmi verður hægt að millifæra, greiða reikninga, leggja inn og taka út íslenskar krónur í hraðbönkunum. Með hjálp fjarfundabúnaðar verður boðið upp á víðtækari þjónustu og fjármálaráðgjöf. Hraðbankar verða opnir allan sólarhringinn.
Í tilefni opnunarinnar á morgun verður boðið upp á rjúkandi kaffi og sæta bita frá kl. 9 til 17 og öll börn fá endurskinsmerki frá Sparilandi.