Þurfa að millilenda á leiðinni vestur

A330-breiðþota WOW-air. Félagið var með þrjár slíkar áður, en er …
A330-breiðþota WOW-air. Félagið var með þrjár slíkar áður, en er í dag aðeins með eina í rekstri.

Flugvélar á vegum WOW air hafa undanfarna daga þurft að millilenda á lengstu flugleiðum félagsins til að taka eldsneyti þar sem flugdrægni hefur ekki verið næg til að fara alla leið. Þannig hafa vélar á leið til Miami og Los Angeles millilent á Bangor-flugvellinum í Maine í Bandaríkjunum eða í Edmonton í Kanada.

WOW air fékk fyrstu Airbus A330-vélina afhenta á fyrri hluta ársins 2016 og var hún notuð í Bandaríkjaflug félagsins. Síðar bættust fleiri við og á fyrri hluta þessa árs var tilkynnt um að WOW ætlaði að hefja áætlunarflug til Delí. A330-vélarnar voru meðal annars notaðar í flug félagsins til San Francisco, Los Angeles og fleiri áfangastaða sem kröfðust mikillar flugdrægni.

Í febrúar á þessu ári kom upp sú stað að tvær af þremur A330-vélum félagsins voru tímabundið ótiltækar. Var það vegna reglubundinnar skoðunar á einni vél og óhapps sem önnur varð fyrir. Var þá haft eftir forsvarsmönnum félagsins að félagið myndi tímabundið nota Airbus A321neo vélar til að fylla í skarðið, en í ljósi vegalengdarinnar gæti þurft að stoppa á leiðinni til Los Angeles eða San Francisco.

Uppgefin flugdrægni A321-neo-vélanna er 7.400 km, en vegalengdin til Los Angeles er rúmlega 6.900 km og til Miami rúmlega 5.900 km. Til viðbótar þarf þó að gera ráð fyrir veðri og vindum á leiðinni sem og þyngd vélarinnar. Getur staða háloftavinda haft mikið með það að segja hver eyðsla vélanna er. Þá er samkvæmt upplýsingum mbl.is almennt gert ráð fyrir 3-5% aukaeldsneyti ofan á það sem áætlað er í flugið, eldsneyti til að komast á varaflugvöll og til viðbótar eldsneyti til að fljúga í 30 mínútur.

Þegar allt er tekið saman þýðir þetta að þó að flugdrægni vélarinnar segi að hún geti farið allt að 7.400 kílómetra, þá geti aðstæður og öryggiskröfur valdið því að hægt sé að fara mun styttri vegalengd. Til samanburðar er flugdrægni A330 frá 11.750 upp í 13.330 km eftir gerð vélanna sem WOW hefur haft til umráða.

Í lok nóvember var tilkynnt að flugvélum WOW air myndi fækka um fjórar, þar á meðal um tvær A330-vélar. Er núna aðeins ein A330-vél í notkun hjá félaginu sem er með skráninganúmerið TF-GAY.

Á síðustu dögum hafa vélar frá félaginu á leið til Los Angeles millilent í Edmonton og hefur seinkun vegna þess numið hálftíma upp í einn og hálfan tíma. Samkvæmt flugáætlun WOW air er gert ráð fyrir 40 mínútna seinkun vegna millilendingar á leiðinni út, en seinkun upp á klukkutíma og kortér á leiðinni heim. Þá millilenti vél á leið til Miami í Bangor í Maine, en vélin er þar enn, tveimur dögum eftir komuna til Miami.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK