Lýsi hf. bættist nýlega í hluthafahóp fyrirtækisins Pure North Recycling sem er eina fyrirtækið á landinu sem endurvinnur plast. Ásamt því að endurvinna um 2.000 tonn af heyrúlluplasti á ári stefnir Pure North á endurvinnslu fleiri plasttegunda. Það er ekki seinna vænna að mati hluthafa fyrirtækisins en kolefnislosun frá sorpi er hlutfallslega talsvert meiri hérlendis en í mörgum öðrum löndum og ógnar hreinleikaímynd Íslands sem er útflutningsgreinum og ferðaþjónustunni svo mikilvæg.
Tenging Lýsis við fyrirtæki sem endurvinnur plast er nokkuð einföld í sjálfu sér. Fyrirtækið framleiðir vöru úr fisknum í sjónum sem eins og vitað er hefur að geyma sífellt meira plast. Flest höfum við séð myndskeið af skjaldbökunni með plaströrið í nefinu eða heyrt um plasteyjar sem eru tvöfalt stærri en Frakkland. Pure North er í dag eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Fyrirtækið endurvinnur nánast allt heyrúlluplast sem til fellur í landinu eða um 2.000 tonn á ári. Líkt og nafn fyrirtækisins gefur til kynna er aðeins notast við umhverfisvæna orkugjafa í endurvinnslunni, jarðvarma og orku úr affallsvirkjun en engin kemísk efni eru notuð við vinnsluna. Íslendingar eru að mati þríeykisins komnir of skammt á veg í endurvinnslumálum. Sér í lagi þegar horft er til þess að ekki er ólíklegt að á næsta ári verði samþykktar takmarkanir á flutningi á óunnu plasti á milli landa. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins eru 95% af óendurunnu umbúðaplasti flutt úr landi. Áætlað er að um 16 þúsund tonn af umbúðaplasti séu flutt inn til landsins árlega og einu lausnirnar í dag eru að urða það eða flytja það aftur úr landi. Segja má að um þjóðþrifamál sé að ræða, í orðsins fyllstu og bókstaflegustu merkingu.
„Við erum að tala um þjóðþrifamál,“ segir Katrín og heldur á A4-blaði með mynd af Íslandi sem stimplað er á stórum stöfum: „ÞJÓÐÞRIFAMÁL“. Katrín sagðist nefnilega fyrir fimm árum hafa lent í ákveðnu sjokki. Lýsi, afurðin sem hún framleiðir og selur um allan heim, var orðin menguð af plasti.
Sjá viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.