WOW air flaug sitt fyrsta flug til Nýju-Delí í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingum býðst beint áætlunarflug til Indlands og verður flogið til Nýju-Delí þrisvar sinnum í viku.
Breiðþota WOW air lagði af stað rétt fyrir hádegi í dag og er flugið lengsta áætlunarflug íslenskrar flugsögu.
„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á ferðum á góðum kjörum til og frá Indland[i] enda land sem býr yfir ríkri menningu og sögu. Með því að tengja Indland við leiðarkerfi WOW air til Norður-Ameríku þá mun staða Íslands sem tengistöð[var] styrkjast enn frekar,“ er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air, í tilkynningu.
Skúli fór ekki með í jómfrúarferðina til Indlands þar sem hann hefur öðrum hnöppum að hneppa, það er að ganga frá samkomulagi við Indigo Partners um kaup á félaginu. Í tilkynningu sem WOW air sendi frá sér í gær kemur fram að félagið og Indigo Partners hafi fundað síðustu daga um mögulega fjárfestingu Indigo Partners í WOW air í kjölfar þess að hafa undirritað viljayfirlýsingu í síðustu viku. Bill Franke, stjórnandi Indigo Partners, kom til landsins í vikunni til þess að kynnast félaginu og fara yfir framtíðartækifæri þess.
Ekki hefur verið gefið upp hvenær samningaviðræðum ljúki en áður en kemur til þess þurfa niðurstöður varðandi leiðarkerfi WOW air, flugvélaleigusamninga ásamt samningum við skuldabréfaeigendur félagsins að liggja fyrir.