Jómfrúin hefur fyrir löngu markað sér sess sem stofnun á íslenskum veitingamarkaði. Í tæp 23 ár hefur hún tekið á móti gestum í Lækjargötunni og reksturinn vaxið jafnt og þétt. Og þótt hún sé söm við sig hefur hún tekið miklum breytingum á þeim þremur árum sem Jakob „yngri“ Jakobsson hefur verið þar við stjórnvölinn.
„Ég hef lengi tengst þessum stað. Ég er reyndar ekki alinn upp hjá pabba en þegar ég var í heimsókn hjá honum þá var ég oft hérna, ekki síst í eldhúsinu. Mér þótti það ekki neitt sérstaklega skemmtilegt en ég kunni símanúmerin hjá öllu starfsfólkinu. Það var hægt að fletta upp í mér eins og símaskránni,“ segir Jakob þar sem hann horfir yfir staðinn.
Hann viðurkennir að á þessum árum hafi ekki hvarflað að honum að einn daginn myndi hann eignast staðinn og reka hann.
„En þetta er einskonar þróun. Þegar maður fer að vinna við þetta og kynnast starfinu, öllu fólkinu, þá verður maður opnari fyrir þessu. En vendipunkturinn var 2015 þegar ég lauk MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík. Þá stökk ég á tækifærið, keypti fyrirtækið. Það var annaðhvort að gera það eða að fara og gera eitthvað allt annað. Við höfðum rætt þetta annað slagið, slegið í og úr með þetta en svo var það fyrir tilstuðlan vinar að ég hitti Birgi Bieltvedt. Ég hafði verið í námi í Noregi og hann var að fjárfesta þar og mér datt í hug að ég gæti jafnvel fengið vinnu hjá honum.“
En ekki fer allt eins og ætlað er og samtalið þeirra í milli varð til þess að þeir keyptu í sameiningu staðinn af föður Jakobs.
„Þetta varð því áfram fjölskyldufyrirtæki en inn í fyrirtækið kom bæði fjármagn og reynsla frá Birgi. Og það reyndist mjög vel enda var komið að ákveðnum tímamótum hjá Jómfrúnni. Það var orðið tímabært að fjárfesta í staðnum og endurnýja. Pabbi hefur oft nefnt við mig að breytingarnar sem við réðumst í hafi heppnast vel en þegar hann horfir yfir það hvað þetta var umfangsmikið þá viðurkennir hann að hann hefði líklegast ekki nennt því sjálfur.“
Sjá viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.