Stjarnan ehf., rekstraraðili Subway veitingastaðanna, þarf að greiða þrotabúi EK1923 15 milljónir eftir að Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms um að rifta framsali á kröfu EK1923 á hendur íslenska ríkinu til Stjörnunnar. Var framsalið talið fela í sér greiðslu til Stjörnunnar með óvenjulegum greiðslueyri og að greiðslan hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum.
Þrotabú EK1923 byggði riftunarkröfu sína á því að framsal kröfunnar hafi verið gjafagjörningur til hagsbóta fyrir Stjörnuna. Var krafan tilkomin vegna ofgreiðslu gjalda til ríkissjóðs í tengslum við úthlutun á tollkvótum með útboði á árunum 2014 og 2015.
EK1923 ehf. var lengst af þekkt sem heildverslun Eggerts Kristjánssonar hf. og var meginstarfsemi þess innflutningur á matvöru og hreinlætisvörum. Árið 2016 var nafni félagsins breytt í EK1923 ehf., skömmu áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Í nóvember 2013 keypti Leiti eignarhaldsfélag ehf., sem er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar, sem kenndur er við Subway, 70% eignarhlut í EK1923 ehf. Hið fyrrnefnda félag eignaðist síðan hið síðarnefnda alfarið árið 2015. EK1923 tók síðar við sem birgi fyrir Stjörnuna og þar með Subway.
Annað félag Skúla, Sjöstjarnan ehf., var í október dæmt til að greiða þrotabúi EK1923 223 milljónir og var greiðslu upp á 21,3 milljónir frá EK1923 til Sjöstjörnunnar rift. Uppreiknað námu báðar kröfurnar um 407 milljónum.