Þurfi að hefja söluferli banka

Lárus Blöndal.
Lárus Blöndal. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Framtíðarsýn okkar er að bankakerfið þjóni fólki og fyrirtækjum og bjóði góða þjónustu á góðu verði,“ sagði Lárus Blöndal, formaður nefndar hvítbókar um fjármálakerfið. Nefndin hóf störf í febrúar og kynnti hvítbókina í fjármálaráðuneytinu í dag.

Talið er að fjöl­breytt eign­ar­hald í bönkunum sé til þess fallið að ná sátt og draga úr áhættu. Í þessu sam­hengi er sagt mik­il­vægt að stjórn­völd hugi að því að losa um eign­ar­hluti í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um með heild­stæðum hætti.

„Við þurfum að hefja þetta ferli, það er meginniðurstaðan hjá okkur. Þetta er mikil eign og það er áhætta að eiga svona eignir, það eru gömul sannindi og ný. Þetta er ekki þekkt í okkar í nærumhverfi og segir sína sögu,“ sagði Lárus.

Hann segir að nefndin leggi fyrst og fremst áherslu á að vegferðin um sölu í hlut banka hefjist en ekki er lagt mat á hversu langt skuli ganga eða hversu hratt skuli ganga fram. „Menn hefja ferlið og taka mið af aðstæðum en það þarf að fara að stíga fyrstu skrefin,“ sagði Lárus.

Hann ítrekaði að regluverkið núna væri allt annað en það var fyrir hrun og einnig allt annað en þegar bankarnir voru einkavæddir í byrjun aldarinnar. 

Fyrir fram taldi Lárus að afstaða fólks til bankanna mótaðist fyrst og fremst af hruninu en niðurstaðan var sú, í könnun sem Gallup gerði fyrir starfshópinn, að hægt væri að auka traust til bankakerfisins með lægri vöxtum og betri kjörum.

„Það virðist skapa vantraustið. Fólki finnst það ekki vera að gera sanngjarna samninga og því finnst eins og það sé verið að okra á því,“ sagði Lárus. Hann sagði að það væri hægt að lækka kostnað, til að mynda með auknu samstarfi í innviðum, bæði innanlands eða við Norðurlönd og Evrópu.

„Þannig að fólk upplifi sig í viðskiptum við sanngjarnan banka með eðlilega, samkeppnishæfa vexti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK