Ferðaskrifstofur Travelco, áður Primvera Travel, töpuðu fimm milljörðum króna á falli flugfélagsins Primera Air, að sögn Andra Más Ingólfssonar, eiganda félaganna, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.
Hann segir í viðtalinu að Primera Air væri enn í rekstri ef Arion banki hefði veitt brúarfjármögnun líkt og staðið hafi til. Bankinn hafi einnig þrýst á um að rekstur ferðaskrifstofanna yrði færður í nýtt félag.
Í október kom fram að aðeins 250 þúsund danskar krónur og einn bíll sé það sem skiptastjórar í búi Primera hafi fundið við uppgjör þess. Líklegt er, miðað við þessa stöðu, að þeir loki þrotabúinu fljótlega þar sem engir peningar eru til að greiða laun fyrir uppgjör búsins. Frá þessu er greint á vef danska miðilsins Fyens Stifstidende og er haft eftir Morten Hans Jakobsen, einum af þremur skiptastjórum félagsins.
Um miðjan október sögðu danskir miðlar frá því að kröfur í félagið væru um 16,4 milljarðar íslenskra króna og að kröfuhafar væru 500 talsins. Stuttu áður var tilkynnt um að Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi eigandi Primera Air, hefði keypt allar ferðaskrifstofur Primera Travel Group og tekið yfir skuldir við Arion banka. Fóru eignirnar inn í nýtt félag Andra sem heitir eins og áður sagði, Travelco.