Kaupa fyrir 6,2 milljarða í Alvotech

Hátæknisetur Alvotech.
Hátæknisetur Alvotech. Ljósmynd/Aðsend

Japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma hefur fjárfest í Alvotech fyrir um 50 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur  6,2 milljörðum króna, en um er að ræða 4,2% eignarhlut í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Miðað við kaupverðið er lyfjafyrirtækið metið á rúmlega 147 milljarða króna.

Alvotech og Fuji Pharma tilkynntu nýlega um samstarf þar sem það fyrrnefnda þróar og framleiðir líftæknilyf fyrir Japansmarkað, sem er þriðja stærsta markaðssvæði heims. Í tilkynningunni segir að innkoma Fuji Pharma í hluthafahóp Alvotech muni styðja enn frekar við samstarf fyrirtækjanna á næstu árum og markaðssetningu líftæknilyfja um allan heim.

Haft er eftir Róbert Wessman, stofnanda Alvotech, að ánægjulegt sé að fá nýjan fjárfesti í hluthafahópinn. Segir hann að aðeins séu fimm ár síðan fyrsta skóflustungan var tekin að hátæknisetri fyrirtækisins í Vatnsmýri og síðan þá hafi fyrirtækið ráðið til sín 250 vísindamenn og reist lyfjaverksmiðju fyrir líftæknilyf.

„Fjárfesting Fuji Pharma nú styður við okkar framtíðarplön, en er ekki síður til marks um þá trú sem erlendir fjárfestar hafa á fyrirtækinu. Fram undan eru spennandi tímar hjá Alvotech. Klínískar rannsóknir Alvotech eru að hefjast og fyrirtækið er vel fjármagnað til frekari vaxtar og bakland fyrirtækisins er traust,“ er haft eftir Róbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK