Landsréttur dæmdi á á föstudaginn síðastliðinn Skúla Gunnar Sigfússon, kenndan við Subway, til að greiða þrotabúi EK1923 ehf. tæplega 2,3 milljónir í skaðabætur. Landsréttur sneri við dómi Héraðsdóms Suðurlands sem sýknaði Skúla af skaðabótakröfunni í janúar á þessu ári.
Í dóminum kemur fram að Skúli hafi átt alla hluti í félaginu Leiti eignarhaldsfélagi ehf. sem var móðurfélag EK1923 ehf. og Stjörnunnar ehf. Stjarnan er rekstraraðili Subway á Íslandi og annaðist frá ársbyrjun 2014 innflutning og dreifingu hráefnis fyrir Subway meðal annars frá Evron Foods Ltd.
Þrotabú EK1923 ehf. krafði Skúla um skaðabætur vegna tjóns sem þrotabúið hafði orðið fyrir vegna greiðslu EK1923 ehf. á skuld við Evron Foods Ltd. og var byggt á því að Skúli hefði sem eigandi EK1923 gefið fyrirmæli um greiðslu skuldarinnar þrátt fyrir að hafa verið grandsamur um ógjaldfærni félagsins.
Af gögnum málsins mátti ráða að Skúli hafi lagt áherslu á að skuldin við Evron Foods yrði greidd og hann hefði haft af því augljósa viðskiptahagsmuni af því uppgjöri í ljósi eignarhalds hans á Stjörnunni ehf. í gegnum Leiti ehf.
Var lagt til grundvallar að Skúli hefði í skjóli eignarhalds síns á EK1923 í gegnum Leiti, með beinum eða óbeinum hætti gefið fyrirmæli um að skuldin yrði greidd, og að þeim tíma sem hann hefði gefið fyrirmælin um greiðslu skuldarinnar hefði hann búið yfir upplýsingum um að EK1923 hefði verið ógjaldfært.
Því hefði Skúli með saknæmum og ólögmætum hætti valdið EK1923 tjóni sem nam fjárhæð greiðslu skuldarinnar að fjárhæð kr. 2.226.793 og var því fallist á skaðabótakröfu þrotabús EK1923.
Skúli þarf að greiða fjárhæðina með dráttarvöxtum auk þess sem hann þarf að greiða málskostnað fyrir Landsrétti og héraðsdómi samtals kr. 2.200.000.
Er þetta í þriðja skiptið síðan í október sem Skúli eða félag í hans eigu er dæmt til að greiða þrotabúi EK1923. Félag Skúla Sjöstjarnan ehf. var í október dæmt til að greiða þrotabúinu 223 milljónir króna og þá var Stjarnan ehf. dæmt til að greiða þrotabúinu 15 milljónir fyrr í þessum mánuði.