Hafa fækkað um 32 starfsmenn á árinu

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line Iceland hefur brugðist við samdrætti með uppsögnum …
Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line Iceland hefur brugðist við samdrætti með uppsögnum og ráðgert er að bílum fækki á næsta ári.

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line Iceland hefur á þessu ári þurft að fækka starfsmönnum fyrirtækisins um 32 og á næsta ári er ráðgert að fyrirtækið dragi að hluta til saman seglin í útgerð hópferðabifreiða. Þetta segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins. Af starfsmönnunum 32 eru fimm sem hafa hætt, en ekki verið ráðið í störf þeirra á ný. Hinum 27 var sagt upp á árinu. Flestir umræddra starfsmanna eru bílstjórar og leiðsögumenn, en þó hafa uppsagnir átt sér stað í flestum deildum fyrirtækisins.

„Það liggur fyrir að á þessu ári höfum við fækkað starfsfólki um 32, en þegar mest var störfuðu hjá okkur um 300. Eins og staðan er í dag, þá gerum við síðan ráð fyrir því að bílafjöldinn sem við gerum út verði á næsta ári kominn niður í 70 úr um 76 til 78 bílum,“ segir hann.

Fimmtán uppsagnanna áttu sér stað í apríl á þessu ári, en í fréttatilkynningu sagði að uppsagnirnar væru þær fyrstu í 30 ára sögu fyrirtækisins sem þyrfti að ráðast í til að mæta samdrætti. Uppsagnirnar í apríl tengdust því að Gray Line missti samning sinn við Bláa lónið um sölu á baðgjaldi í lónið. „Algjör forsenda þess að geta boðið áætlunarferðir í Bláa lónið er að viðskiptavinir geti um leið keypt baðgjald,“ sagði í tilkynningunni, en einnig var vísað til þess að undirboð erlendra hópferðafyrirtækja hefðu talsverð áhrif á reksturinn.

Undirboð erlendra fyrirtækja haft talsvert að segja

Aðspurður segir Þórir að samdráttur á þessu ári hafi mikið að segja um hagræðingaraðgerðirnar heilt yfir og vísar hann sem fyrr til undirboða erlendra hópferðafyrirtækja.

„Þetta er í takt við það sem við andann sem var í sumar. Þá var samdráttur og við vorum ekki samkeppnishæf gagnvart þessum erlendu bílum sem hafa verið hérna. Síðan eru ferðaþjónustufyrirtæki almennt þannig að þau stækka og minnka eftir því hvernig markaðurinn vex eða minnkar,“ segir hann.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line á Íslandi.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line á Íslandi. mbl.is/Golli

„Í mannahaldi hjá okkur er þetta u.þ.b. 10% fækkun á árinu. Það er mikil hreyfing á bílum og tiltölulega auðvelt að fækka, en það er auðvitað alltaf sárt að horfa á eftir góðu fólki. Þegar við hættum að keyra í Bláa lónið, þá fækkaði alveg töluvert hjá okkur,“ segir Þórir.

Bjartsýnn varðandi framhaldið

Spurður hvort áhyggjur séu af framhaldinu kveður Þórir nei við.

„Það sem skiptir rosalega miklu er kaupmáttur ferðamanna og með veikingu krónunnar er hann að koma aftur til baka. Það var byrjað að halla verulega á okkur árið 2016 þegar krónan styrktist og virðisaukaskatturinn var lagður ofan á vöruna sem gerði hana dýrari. Ég sé fram á að næsta ár verði bara gott og það er ekkert í mínum huga sem skyggir þar á. Menn geta leikið sér í Excel-skjölum alveg aftur á bak og áfram, en miðað við það sem við finnum úti á markaðnum og áhugann sem er á Íslandi, þá erum við alveg þokkalega bjartsýn,“ segir hann.

Spurður hvort aðrar hagræðingaraðgerðir en fækkun starfsfólks og bifreiða séu í vændum segir hann að svo sé ekki.

„Það er ekkert fleira sem við horfum til í þessu sambandi. Það er allt frágengið núna sem verður á næsta ári, nema við þurfum jafnvel að bæta í. Þetta er auðvitað sveiflukennt og gengur upp og niður,“ segir Þórir og bendir á að á þessu ári hafi verið keyptir innan við tíu nýir bílar samanborið við 26 bíla á ári þegar mest lét. „Þetta eru bara áskoranir sem menn standa frammi fyrir, að stilla framboðið miðað við eftirspurn,“ segir hann. 

En líta menn þannig á að fyrirtækið standi almennt illa?

„Nei, það er ekki þannig. Reksturinn síðustu tvö árin hefur reyndar ekki verið góður, en þá er fólki bara fækkað, dregið saman og betri nýtingu náð. Félagið stendur samt ekki illa,“ segir hann.



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK