Fjárfestingafélagið Novator partners sem er í eigu Birgis Más Ragnarssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar, Andra Sveinssonar og tveggja annarra meðeigenda, fjárfesti nýlega fyrir 25 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur þremur milljörðum króna, í fyrirtækinu Zwift sem gefur út samnefndan hjólatölvuleik. Var það hluti af 120 milljón dala fjárfestingu í félaginu þar sem Novator var eitt af leiðandi fjárfestingafélögunum. Birgir segir eigendur félagsins stórhuga varðandi þróun leikjarins og svokallaðra rafíþrótta.
Novator hafði áður fjárfest í Zwift árið 2016 og er stærsti einstaki hluthafinn með um 15% hlut, en þrír stofnendur félagsins eru með svipaðan eignarhlut hver og einn. Birgir, sem sjálfur er mikill hjólreiða- og þríþrautarkappi, situr jafnframt í stjórn Zwift fyrir hönd Novator partners, en hjá fyrirtækinu starfa í dag um 220 manns, flestir í Los Angeles, en 20 manns í London og 20 í Brasilíu.
Birgir segir að fjöldi notenda hafi síðustu tvö ár meira en tvöfaldast á hvoru ári, en í nóvember árið 2016 voru 200 þúsund notendur. Í dag eru notendur komnir yfir eina milljón og segist Birgir eiga von á því að þessi mikla fjölgun haldi áfram, enda hafi orðspor félagsins hingað til fyrst og fremst verið í gegnum umtal og umfjöllun og hafi fyrirtækið sett mjög lítið í auglýsingar í ár.
Til að útskýra nánar út á hvað Zwift leikurinn gengur þá er í raun um að ræða tölvuumhverfi fyrir notendur svokallaðra hjólaþjálfara (e. trainers), eða innanhússbúnaði fyrir hjólreiðar. Getur fólk þannig æft hjólreiðar heima í stofu eða úti í bílskúr, en til þess þarf það þó sitt eigið hjól og hjólaþjálfaratækið. Hjólar fólk innan um þúsundir annarra spilara alls staðar að úr heiminum sem einnig tengja sig inn í tölvuumhverfið, hvort sem um er að ræða keppnir, samhjól eða að vera með eigið æfingarplan og sjá bara aðra hjóla um.
Birgir segir að upphaflega hafi hann þurft að sannfæra hina félaga sína í Novator partners um að fjárfesta í félaginu og að þetta væri ekki bara út af áhuga hjá honum. Birgir nefnir að sjálfur sé hann líklega með virkari notendum leiksins. Þá hefur hann keppt bæði í hjólreiðum og þríþraut og átti á sínum tíma Íslandsmetið í Iron man.
Hins vegar hafi árangur fyrirtækisins undanfarin ár sýnt að þarna sé stór og markaður sem hafi farið stækkandi. Þá hafi fyrirtækið fyrr á árinu opnað fyrir hlaupara í tölvuumhverfinu og Birgir segir að horft sé til róðurs. „Við sjáum gríðarleg tækifæri í þessu,“ segir hann og bætir við að Zwift sé öðruvísi en spinning tímar þar sem í gegnum leikinn verði til heilt samfélag sem byggi sig í raun upp sjálft.
En það er ekki bara að fá fólk til að æfa sig heima sem er framtíðarmarkmið fyrirtækisins. Birgir segir það ekkert leyndarmál að stjórnendur Zwift séu stórhuga þegar komi að þessu. Í dag horfi þeir til svokallaðra rafkeppna (e. esports), en þá er átt við íþróttir þar sem keppt er í gegnum tölvur og tölvubúnað. Nú þegar hefur verið greint frá landskeppnum eins og í Bretlandi. Hefur Zwift meðal annars gert samninga við átta atvinnumannalið, meðal annars Team Dimension data og lið fyrrverandi Tour de France sigurvegarans Bradley Wiggins.
Segir Birgir að stjórnendur Zwift sjái fyrir sér að leikurinn verði sá fyrsti þar sem fólk getur keppt í líkamlegri íþróttagrein í gegnum tölvur í viðurkenndum keppnum. Næsta skref er svo öllu stórtækara. „Markmiðið er að vera fyrsta fyrirtækið til að komast á Ólympíuleikana með esport,“ segir hann og bætir við að það sé ekkert leyndarmál að þeir hafi metnað til að koma leiknum þangað, þó engar opinberar viðræður hafi farið fram. „Við finnum hins vegar mikinn áhuga á móti,“ segir Birgir, en þeir hafa meðal annars rætt við eigendur Tour de France og íþróttahreyfingar víða um heim. „Það er gagnkvæmur áhugi á að nýta þetta,“ segir hann.
Með netleikjum eins og Zwift segir Birgir að hægt sé að ná til mikils fjölda fólks sem annað hvort var ekki í íþróttum áður eða einstaklinga sem hafa verið í öðrum íþróttum og vilja prófa sig áfram t.d. í hjólreiðum, en voru ekki tilbúin að taka skrefið í keppnishjólreiðum í hefðbundnum keppnum.
Nefnir hann að Zwift hafi undanfarin ár haldið keppnir meðal notenda leiksins þar sem boðið er upp á prufusamning við atvinnumannalið fyrir þann sem vinnur. Bæði í karla- og kvennaflokki hafa sigurvegararnir sýnt góðan árangur þegar komið var út á göturnar. Þannig hafi sá sem vann karlaflokk í ár verið 19 ára gamall og er hann nú kominn í atvinnumannalið. Síðustu tvær konur til að vinna kvennaflokkinn eru einnig fastamenn í liði atvinnumannaliði Canyon//SRAM, en önnur þeirra var hlaupakona áður og var ekki þekkt meðal hjólafólks.
„Í okkar huga er þetta bara rétt að byrja,“ segir hann um áhuga á rafíþróttum sem hægt er að stunda heima. Hann segir fyrirtækið telja að hægt sé að fá tugi milljóna áskrifendur, en tekur þó fram að margt þurfi að gera fram að þeim tímapunkti.
Segir hann að samfélagið í leiknum sjái að mestu um að byggja sig upp sjálft. Hins vegar sé Zwift í síauknum mæli að horfa til þess minnka þann þröskuld sem þarf að fara yfir til að byrja að hjóla heima hjá sér. Nefnir hann þar sérstaklega vélbúnað. Eins og áður segir þarf fólk bæði hjól og hjólaþjálfunartæki til að geta stundað að hjóla á Zwift. Þá þarf að tengja þetta saman sem getur reynst sumum smá hindrun auk kostnaðar við vélbúnaðinn.
Birgir segir að Zwift hafi undanfarið unnið með vélbúnaðarframleiðendum til að leita leiða til að lækka verð á slíkum tækjum, en hann segir tölvuumhverfi Zwift vera það helsta sem keyri áfram sölu á hjólaþjálfunarbúnaði í heiminum í dag. Þannig hafi Zwift meðal annars keypt upp einkaleyfi með það fyrir augum að lækka kostnað framleiðenda.
Með þessu og öðrum aðgerðum segir hann að fyrirtækið telji að áfram verði hægt að tvöfalda notendafjöldann á komandi árum. Segir hann það vel gerlegt, sérstaklega í ljósi þess að brottfall áskrifanda sé mjög lítið og flestir haldi áfram að borga áskriftargjald yfir sumarmánuði jafnvel þótt þeir hjóli bara úti á þeim tíma.
Novator og tengdir aðilar hafa verið virkir fjárfestar í tölvuleikjum undanfarið. Þeir voru meðal annars stærsti hluthafinn í tölvuleikjafyrirtækinu CCP þangað til það var selt nú í september fyrir sem nemur 46 milljörðum króna. Fengu Novator og tengdir aðilar um 20 milljarða vegna sölunnar.
Þá hefur félagið einnig fjárfest í Machine Zone leiknum, í tölvuleikjafyrirtækinu Klang games, sem þrír Íslendingar reka í Berlín og Sidekick health, en það er leikjavæddur hugbúnaður sem ýtir undir lífstílsbreytingar til að draga úr lífstílssjúkdómum. Segir Birgir að þetta rými ágætlega við stefnu félagsins að fjárfesta í leikjum sem byggi á samfélagstengingu.