Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins Teatime, vinnur þessa dagana hörðum höndum ásamt 20 starfsmönnum fyrirtækisins við að gefa út nýjan tölvuleik. Áætlaður útgáfudagur er í febrúar á næsta ári en nú þegar hafa erlendir fjárfestingarsjóðir fjárfest fyrir um 9,1 milljón bandaríkjadala í fyrirtækinu sem nemur rúmum milljarði króna. Í samtali við Morgunblaðið segir Þorsteinn að fyrirtækið sé þó ekki aðeins að stefna að útgáfu eins nýs leik heldur fleiri leikja sem allir byggja á nýrri og áður óþekktri hugmyndafræði í símaleikjageiranum. Í ljósi þess að um marga leiki verður að ræða býður það upp á mun meiri tekjumöguleika fyrir fyrirtækið en fyrri leikur stofnenda Teatime, QuizUp strandaði á vissan hátt á því hversu erfitt það var að skapa tekjur í leiknum sem náði til yfir 100 milljón notenda.
Teatime Games var stofnað í fyrra en hingað til hefur starfsemi þess farið nokkuð huldu höfðu ef frá er talin fjármögnun fyrirtækisins en aðalfjárfestir í Teatime Games er fjárfestingasjóðurinn Index Ventures. Í samtali við blaðamann segir Þorsteinn að hugmyndin að leiknum hafi sprottið upp út frá nokkuð óvæntri stefnu sem fyrri leikur Þorsteins, QuizUp, tók. Segja má að kjarni hugmyndafræði fyrirtækisins séu mannleg samskipti sem óhætt er að segja að hafi breyst töluvert með tilkomu þeirra öflugu snjallsíma sem nánast allir eiga nú til dags.
Í spurningaleiknum QuizUp spilaði fólk spurningaleik saman í rauntíma. Þar var boðið upp á möguleika til að spjalla. Til að gera langa sögu stutta segir Þorsteinn að rúmlega 20 brúðkaup hafi verið haldin þar sem fólk kynntist upphaflega í gegnum spurningaleikinn. Þorsteinn sjálfur var raunar viðstaddur eitt þeirra í gegnum Skype.
„Það má segja að þetta hafi verið kveikjan að ákveðinni hugmynd sem við fengum, sem er Teatime,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn lagði höfuðið í bleyti ásamt meðstofnendum sínum, Ými Erni Finnbogasyni, Jóhanni Þorvaldi Bergþórssyni og Gunnar Hólmsteini Guðmundssyni næstsíðasta sumar. „Fólk hefur spilað alls konar spil, ekki tölvuleiki, alls konar spil saman, í mörg þúsund ár. Við fórum að pæla í því hvar mestu verðmætin eru fólgin í því að spila við fólk einhver spil. Við komust að þeirri niðurstöðu, að þegar fólk safnast saman, hvort sem það er borðspil, eða ólsen ólsen, þá eru aðalverðmætin ekki endilega í spilinu sjálfu, heldur í samskiptum sem þú átt við fólkið sem þú ert að spila við,“ segir Þorsteinn.
Aðspurður segir Þorsteinn að það dragi að vissu leyti úr mikilvægi leiksins sjálfs. „Á vissan hátt gerir það það. Við höfum pælt í því að þegar þú ert að spila t.d. bara ólsen ólsen með börnunum þínum. Það er mjög gaman en ólsen ólsen er ekki góður leikur. Það myndi enginn leikjahönnuður segja: Þetta er mjög sniðugt! En það er samt gaman þegar þú nærð ólsen ólsen og sérð viðbrögð annarra og vinnur þá,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir að um nýja tegund símaleikja sé að ræða og að mikil tækifæri séu fyrir hendi. Hann segir símatölvuleiki velta meira en allur kvikmyndaiðnaðurinn í Hollywood gerir og orðinn langstærstur í tölvuleikjaheiminum. „Miklu stærri en Playstation, PC, eða nokkuð annað í veltu,“ segir Þorsteinn.
„En í símatölvuleikjum er fólk einhvern veginn alltaf svo eitt og þú ert eiginlega aldrei að spila með einhverjum öðrum. Þótt það séu símatölvuleikir til sem eru „multiplayer“ og þú ert að spila með öðrum þá sérðu oftar en ekki bara eitthvert notendanafn og getur ekki beint haft góð samskipti við manneskjuna,“ segir Þorsteinn og heldur áfram. „Ekkert sem er í líkingu við það að eiga í mannlegum samskiptum við aðra manneskju.“
Þorsteinn bendir á að fjölmargar kannanir hafi sýnt að einmanaleiki hefur aukist gríðarlega mikið með tilkomu snjalltækja. Þrátt fyrir að fólk eigi í raun í meiri samskiptum, í gegnum samskiptaforrit á borð við Messenger eða WhatsApp. „Sem er ótrúlega mikil þversögn því í raun og veru erum við að núna að eiga meiri samskipti heldur en nokkru sinni áður,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn bendir á að yngra fólk sé í meiri mæli farið að nýta sér öðruvísi tækni. Það sendi frekar skilaboð til sinna vina með Snapchat, noti myndavélina þar sem samskiptin verða dýpri, með svipbrigðum sem illa er hægt að tjá í svarthvítum texta.
Teatime hyggst því nýta þá öflugu tækni sem snjallsímarnir búa yfir og blanda henni við svokallaða AR-tækni (e. augmented reality) sem margir kannast við úr filterum sem boðið er upp á á Snapchat, eða í Pokémon Go leiknum þar sem tölvutækni er notuð til þess að auðga eða breyta veruleikanum.
„Við hugsuðum með okkur að blanda þessari nýju tækni sem símarnir eru, við aðra tækni. Við viljum því bjóða upp á leik við rauntímavídeósímtal. Ofan á það ætlum við að nota AR-tæknina, til að skjóta fólki inn í einhver leikjaheim. Gera það raunverulegt, þar sem þú átt í raunverulegum samskiptum við vini þína á meðan þú ert að spila leiki, þó að þeir séu einhvers staðar allt annars staðar. Til að bæta og auka gæði samskipta hjá fólki sem er að spila saman tölvuleik,“ segir Þorsteinn og bætir því við að slík tækni hafi ekki verið notuð áður til að búa til símaleik.
„Við erum að gera þessa tækni til þess að verða góðir í því að búa til leiki þar sem fólk er annaðhvort að keppa á móti einhverjum í rauntíma, eða með einhverjum í rauntíma. T.d. við að leysa þrautir,“ segir Þorsteinn.
Eins og áður segir er stefnt að útgáfu fyrsta leiksins í febrúar á næsta ári en von er á fleiri leikjum eftir það sem styrkir tekjugrunn fyrirtækisins. Í því ljósi stendur ekki allt og fellur með þessum eina leik líkt og var raunin með QuizUp. Þorsteinn segir teymið hafa lært mikið af QuizUp og að tekjugrunnurinn hafi verið það fyrsta sem hugsað var út í.
„Með QuizUp settum við öll eggin í sömu körfu. Spurningaleikir, ekki bara QuizUp, heldur allir spurningaleikir sem hafa komið út á símum, hafa allir átt erfitt með það að skapa tekjur. Það er bara af því að módelið er erfitt,“ segir Þorsteinn.
„Kosturinn við það sem við erum að gera núna er að við erum ekki að búa til einn leik heldur margar tegundir af leikjum. Allir leikirnir eru með mismunandi leið til þess að skapa tekjur. En tekjurnar verða í gegnum auglýsingar og svo með kaupum á vörum í leiknum sjálfum. Eins og allar tekjur verða til í þessum símaheimi,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir þó að tækifærin séu ekki aðeins fólgin í þeim leikjum sem fyrirtækið býr til. „Mér líður eins og möguleikinn á þessu tækifæri sé miklu stærri en QuizUp. Hérna erum við að búa til tækni. Við erum ekki bara að búa til leiki sjálf heldur sjáum við fyrir okkur að vinna með þessa nýju tegund leikja með stúdíóum úti um allan heim. Þetta er í raun alveg nýtt „genre“ af leikjum sem ég spái að verði mjög fyrirferðamiklir í náinni framtíð.“