Heildarkortavelta erlendra ferðamanna í nóvember var 15,6 milljarðar og jókst um 8,4% milli ára. Hlutfallslega aukningin er þó mun meiri í raun en færsluhirðing korta innlendra flugfélaga hefur undanfarið ár færst frá innlendum færsluhirðum. Þannig var aukningin 18,2% ef litið er fram hjá flugþjónustu. Þetta kemur fram í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.
Erlend kortavelta í verslun jókst um 17,5% á á milli ára og nam 2,4 milljörðum króna í nóvember. Mest jókst kortavelta gjafa- og minjagripaverslana í nóvember eða um 45% frá sama mánuði í fyrra og í flokknum önnur verslun um ríflega 20,8% en flokkurinn inniheldur sérvöru ýmiskonar.
Veltuaukning þessara tveggja flokka samanlagt frá nóvember í fyrra nemur 218 milljónum. Hækkunin er nokkuð rífleg en gengi krónunnar hefur lækkað um 12,7% á sama tímabili og kaupmáttur ferðamanna hérlendis þar með hækkað. Hugsanlegt er að með hagstæðara gengi hafi erlendir ferðamann ákveðið að kaupa eitthvað til jólanna hérlendis, líkt og minjagripi fyrir vini og vandamenn segir í tilkynningu frá rannsóknarsetrinu.
Erlend kortavelta í dagvöruverslunum jókst um 10,7% í nóvember samanborið við nóvember í fyrra. Greiðslukortavelta í gistiþjónustu jókst um 18,7% á milli ára í nóvember en krónutöluhækkunin nam tæpum 573 milljónum. Mest var aukningin í hótelgistingu.
Velta erlendra greiðslukorta í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem nær yfir hinar ýmsu skipulögðu ferðir, jókst um 22,1% í nóvember samanborið við fyrra ár. Kortavelta í flokki veitingaþjónustu hækkaði í nóvember síðastliðnum um 16,5% á milli ára. Þá jókst erlend kortavelta í sölu eldsneytis talsvert á milli ára, var veltan 25,4% hærri í nóvember í ár, samanborið við fyrra ár.