Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefur haft samband við forstjóra sex stærstu banka Bandaríkjanna til að fara yfir stöðu mála á bandarískum fjármálamarkaði. Þetta þykir afar óvenjulegt en markmiðið er að róa fjárfesta í kjölfar mikilla lækkana sem hafa orðið í kauphöllinni á Wall Street.
Síðasta vika var ein sú versta í bandarísku kauphöllinni í áratug, en titringur mældist á markaði í kjölfar stýrivaxtahækkunar bandaríska seðlabankans og vegna viðskiptadeilna Bandaríkjamanna við Kína.
Fram kemur á vef BBC, að Mnuchin hafi fengið þær upplýsingar að lausafjárstaða bankanna væri viðunandi.
Þetta gerist einnig á sama tíma og hluta af bandarískum ríkisstofnunum hefur verið lokað vegna deilna demókrata og repúblikana um fjárlögin.
Bandaríska fjármálaráðuneytið segir í tilkynningu, að bankastjórarnir sex hafi staðfest í samtali við ráðherrann að lausafjárstaðan væri viðunandi til að lána fé til almennings, fyrirtækja sem og annarra.
Þá staðfesti Mnuchin að engin vandræði hafi komið upp og að markaðurinn haldi áfram að starfa með eðlilegum hætti.
Viðskiptablaðamaður BBC, Dominic O'Connell, segir að yfirlýsing ráðuneytisins sé mjög undarleg og gæti skotið fjárfestum skelk í bringu.
„Fólk er að velta því fyrir sér í alvöru hvort þetta sé hlutverk fjármálaráðherra Bandaríkjanna,“ segir hann.
Aðrir greiningaraðilar eru einnig á þeirri skoðun að þessi óvænta yfirlýsing geti gert fjárfesta áhyggjufulla.
Oliver Pursche, sem situr í stjórn Bruderman Asset Management, segir að bandarísk stjórnmál hafi gríðarlega mikil áhrif á það hvert markaðurinn stefnir og það getur breyst án mikils fyrirvara.