Áætlað er að hátt í 30 þúsund erlendir ferðamenn verji jólum og áramótum á Íslandi í ár. Gert er ráð fyrir því að 70% þeirra dvelji á suðvesturhorni landsins, samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
Fimmtíu flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli í gær, aðfangadag, en í fyrra lentu þar 46 vélar og 40 vélar árið 2016. Á gamlársdag má búast við að 56 flugvélar lendi á Keflavíkurflugvelli. Í fyrra voru þær 59 en voru þær 49 árið 2016.
Í desember 2016 komu hátt í 125 þúsund ferðamenn til landsins, í fyrra voru þeir 135 þúsund. Bjartsýnustu spár Samtaka ferðaþjónustunnar gera ráð fyrir hátt í 150 þúsund erlendum ferðamönnum í desember þetta árið.
Samkvæmt Samtökum ferðaþjónustunnar skapar ferðaþjónusta um jól og áramót miklar tekjur, og áætlað er að erlendir ferðamenn skilji eftir sig um 30 milljarða í gjaldeyristekjur í desember.
Hótelhaldarar í Reykjavík finna fyrir aukningu í bókunum um jólin og á suðvesturhorni landsins stefnir í mjög góða nýtingu á hótelum og gistiheimilum og er nánast uppbókað um jólin. Ekki er uppselt á landsbyggðinni og liggja þar mikil tækifæri.