Í fyrsta sinn frá árinu 2015 reynast uppgreiðslur verðtryggðra húsnæðislána hærri en nýjar lántökur. Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands frá viðskiptabönkunum. Drógust verðtryggð lán banka til heimila, með veði í húsnæði, saman um tæpan milljarð í nóvember.
Á fyrstu 10 mánuðum ársins námu ný útlán í þessu formi, umfram uppgreiðslur, hins vegar ríflega 5,2 milljörðum að meðaltali, að því er fram kemur í ViðskiptaMogganum í dag.
Óverðtryggðar lánveitingar bankanna til heimila stórjukust á sama tíma og lánuðu bankarnir óverðtryggð lán, með veði í íbúðarhúsnæði, að fjárhæð 14,3 milljarða króna í nóvember að teknu tilliti til uppgreiðslna. Hafa bankarnir aldrei fyrr lánað jafn mikið í formi óverðtryggðra lána til heimila í einum mánuði. Um sprengingu er að ræða í þessum efnum og í október og nóvember nema ný óverðtryggð útlán bankanna til heimila viðlíka upphæð og þeir lánuðu í formi samskonar lána allt árið í fyrra, eða rétt ríflega 24 milljörðum króna.