Heildarfjöldi seldra fólksbíla árið 2018 var 17.974 sem er 15,6% minni sala en á síðasta ári. Bílgreinasambandið spáir því að á næsta ári seljist um 15.500 fólksbílar, sem er um 13,8% samdráttur frá árinu sem er að líða.
Söluaukning á rafmagns- og tengiltvinnbílum milli áranna var 15,8% og eru þeir 21% af heildarsölu ársins 2018. Því er ljóst að mikil spurn er eftir umhverfisvænum bílum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.
Með auknu úrvali orkugjafa hefur þar af leiðandi dregið úr sölu bensín- og dísilfólksbíla. Heldur meiri samdráttur hefur verið í sölu dísil-fólksbíla en bensín-fólksbíla. Hlutafall dísil-fólksbíla í heildarsölu ársins 2018 var 37,9% samanborið við 41,7% í fyrra. Samdráttur í bensín-fólksbílum var 1,8% milli áranna eða úr 43,2% árið 2017 í 41,4% árið 2018.
Þegar horft er til heildarsölu bílaleigubíla á árinu má sjá að skráningar í ár voru 6.680 fólksbílar samanborið við 8.196 fólksbíla árið 2017. Þarna er því um töluverðan samdrátt að ræða eða 18,5%.
Sala til almennings á árinu nam 11.084 fólksbílum en er það samdráttur upp á 13,9% milli áranna 2018 og 2017. Árið 2018 var það þriðja stærsta ef horft er til baka 10 ár í bílasölu og nokkuð sambærilegt árinu 2016 í fjölda seldra nýrra fólksbíla. Ef horft er til ársins 2016 þá er munur ársins í árs einungis 2,8% minni í sölu fólksbíla.
Þegar þessi ár eru borin saman má sjá að bílaleigur eru einna helst að draga úr kaupum fólksbíla milli áranna 2016 og 2018 eða um 18,1% en almenningur er aftur á móti auka kaup á nýjum fólksbílum um 9%.
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir í tilkynningunni að margir þættir hafi haft áhrif á sölu ársins. Síðari hluti ársins einkenndist af mikilli óvissu þegar beðið var eftir niðurstöðu varðandi breytinga á vörugjöldum ökutækja vegna nýrrar aðferðar við mælinga á útblæstri bíla. Bílar fóru að koma til landsins frá og með 1. september með ný mæligildi útblásturs sem leiddi til hækkunar á vörugjöldum en breyting á lögum tók ekki gildi fyrr en í lok nóvember til að koma til móts við þær hækkanir sem stöfuðu af þessari nýju mæliaðferð og þar af leiðandi hækkun á vörugjöldum.
Á sama tíma fór íslenska krónan að veikjast sem hafði svo aftur áhrif til hækkunar á verð bíla. Þrátt fyrir mjög góða sölu í umhverfisvænum bílum síðustu ár eru innflytjendur ökutækja að sjá fram á að eftirspurn verði umfram framboð á árinu 2019. Má því gera ráð fyrir að einstaklingar bíði með endurnýjun þar til hægt verður að bregðast við þeirri eftirspurn.“
„Átak þarf í að endurnýja bílaflotann og er það gert með því að tryggja innflutning nýrra og minna mengandi ökutækja inn í landið. Endurgreiðsla fyrir förgun eldri bíla hefur ekki breyst í áraraðir þrátt fyrir tal um breytingar þar á. Hækkun á endurgreiðslu er hvati og greiðsla sem hægt er að nýta við kaup á nýjum bíl sem skilar sér aftur inn í ríkissjóð í formi vörugjalda og virðisaukaskatts og því löngu tímabært að endurskoða þá krónutölu sem fæst við afhendingu bíls til förgunar,“ segir María Jóna.