Framtíð þriggja verslana leikfangakeðjunnar Toys'R'Us er óviss en verslanirnar eru opnar í dag. Sigurður Þorgeir Jónasson, verslunarstjóri á Smáratorgi, segist ekkert vita hvað gerist eftir það.
Top-Toy, danskt móðurfélag leikfangakeðjunnar Toys ‘R’ Us á Íslandi sem og annars staðar á Norðurlöndunum, var úrskurðað gjaldþrota milli jóla og nýárs.
Samkvæmt Sigurði hafa engin skilaboð enn borist að utan og þangað til það gerist muni starfsfólk í verslununum halda sínu striki.
Aðspurður segir Sigurður að viðskiptavinir séu enn hvattir til að nýta gjafabréf í verslunum „meðan það er hægt“. Minnt er á venjulegar skilareglur þrátt fyrir mögulegar lokanir.