Þórunn Inga Ingjaldsdóttir hefur verið ráðin sem markaðsstjóri Samskipa á Íslandi, en hún mun leiða innri sem ytri markaðsmál fyrirtækisins. Hún hefur störf hjá Samskipum á morgun, þriðja janúar.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að Þórunn hafi 18 ára reynslu í markaðs- og kynningarmálum. Síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri íþróttasviðs Altis (Under Armour á Íslandi) á árunum 2013 til 2018. Áður var hún vörumerkjastjóri hjá Icepharma (Nike á Íslandi) 2005 til 2013. Þórunn Inga er með MBA-próf frá Háskóla Íslands frá 2017.
Samskip starfrækir skrifstofur í 26 löndum í fimm heimsálfum. Starfsmenn eru um 1.700 talsins.