Rekstraraðilar ferðamannastaða og viðburða sem mbl.is hefur rætt við eru á því að árið 2018 hafi verið nokkuð gott. Dálítil aukning var í fjölda ferðamanna, en hægt hefur á fjölgun ferðamanna sem rekstraraðilar segja að hafi gert þeim kleift að hefja og klára framkvæmdir.
Yfir 250 þúsund ferðamenn skoðuðu Kerið árið 2018 og telst það góð aðsókn að sögn Óskars Magnússonar, stjórnarformanns Kerfélagsins.
„Þetta var dálítil aukning en hún var hófleg og góð dreifing á henni. Þetta virðist vera að koma í meira jafnvægi. Við höfum undan að mestu leyti að byggja upp og betrumbæta göngustíga og palla, við höfum alveg ráðið við það núna,“ segir Óskar og bætir við að einnig sé unnið að deiliskipulagsmálum svo hægt verði að koma upp salernisaðstöðu og bættri aðstöðu fyrir starfsmenn.
„2018 var þokkalegt. Við lentum reyndar svolítið illa í veðri fyrri hluta ársins, bæði janúar og febrúar, sem setti dálítið strik í reikninginn,“ segir Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the glacier sem skipuleggur ferðir í íshelli á Langjökli.
Í heild hafi árið verið aðeins slakara en 2017. „Góður gangur samt,“ segir Sigurður og bendir á að um 60 þúsund nýttu sér tækifærið til þess að fara með fyrirtækinu að Langjökli.
Framkvæmdastjórinn segir ekki hafa verið auðvelt að standa undir örum vexti síðustu ára en að það hafi allt gengið upp. „Síðan erum við á sama tíma að stofna nýtt fyrirtæki og erum á fullu að standsetja allt og koma undir okkur fótunum, en jú það er nú raunin að vexti hjá okkur er nú í raun lokið.“
Hallgrímur Kristinsson sem rekur Lava tunnel, þar sem gefst tækifæri á að skoða Raufarhólshelli, segir um 55 þúsund gesti hafa skoðað hraunhellana á þessu fyrsta heila rekstrarári fyrirtækisins. „Þetta eru auðvitað langmest útlendingar, en það koma líka Íslendingar, fyrirtækjahópar og fleiri.“
Hann segir árið hafa verið mjög gott og að aðsókn hafi verið umfram væntingar, en vinsældir ferðamannastaðarins hafi vaxið hraðar en vonað var. „Þetta virðist spyrjast mjög vel út, fólk virðist vera að tala mjög vel um þetta og við erum rosalega ánægð að sjá það.“