Írska flugfélagið Ryanair hefur, sjötta árið í röð, hlotið þann vafasama heiður að vera útnefnt versta flugfélagið sem flýgur til og frá Bretlandseyjum, í netkönnun bresku neytendasamtakanna Which?
Í frétt á vef samtakanna segir að flugfélagið hafi fengið „lægstu mögulegu einkunn“ í flestum þáttum sem snúa að upplifun farþega á borð við þægindi sæta og veitingar um borð og heildareinkunnina 40% af mögulegum 100% í samanlagðri einkunnagjöf. Þeirra helsti samkeppnisaðili, EasyJet, fékk 63% af 100% mögulegum.
Thomas Cook og Wizz Air, sem er í eigu sömu aðila og eiga nú í viðræðum um kaup á WOW air, skrapa einnig botninn í neytendakönnun Which? en í frétt um niðurstöðurnar er sérstaklega farið yfir hörmulegt ár flugfélagsins Ryanair.
Þar er af nógu að taka og hér á mbl.is hefur verið fjallað um ansi margt í starfsemi þessa írska lággjaldaflugfélags sem er ekki eins og best væri kosið. Þetta sem hér er rifjað upp er ekki tæmandi listi.
Á nýársdag varð farþegi í vél Ryanair, sem átti að fljúga frá Malaga á Spáni til London svo þreyttur á að bíða um borði í vélinni eftir að tekið væri á loft að hann opnaði neyðarútgang, fór út á væng vélarinnar og kom sér fyrir þar.
Maðurinn, sem sagður er hafa verið Pólverji á sextugsaldri, sat á væng vélarinnar í dágóðan tíma áður en tókst að tala hann til og fá hann aftur inn í vélina. Hann var í kjölfarið handtekinn.
Í júlí var greint frá því að blætt hefði úr eyrum farþega í flugi Ryanair frá Dyflinni til Króatíu. Vélin neyddist til þess að nauðlenda í Frankfurt, en orsök blæðinganna var sú að loftþrýstingur um borð féll. 33 voru fluttir á sjúkrahús með höfuð- og eyrnaverki.
Ekki batnaði staðan í ágúst þegar flugmenn Ryanair fóru í verkföll í fimm Evrópulöndum.
Svo fóru flugmenn aftur í verkfall í september og flugliðar félagsins líka.
Október tók við og þá vöktu linkindarleg viðbrögð flugáhafnar Ryanair við grófum kynþáttafordómum um borð hneykslan, en atvikið átti sér stað áður en flugvél Ryanair hélt af stað frá Barcelona til London.
Samfélagsmiðlar loguðu og fólk hótaði að sniðganga Ryanair eftir að myndband fór í dreifingu sem sýndi að áhöfnin vísaði ekki manni, sem sýndi af sér augljóst kynþáttahatur gagnvart svartri konu, frá borði. Myndefni af manninum kalla konuna „ljótan svartan bastarð“ vakti mikla reiði og flugfélagið þurfti að senda frá sér skaðadempandi yfirlýsingu um að farþegar sem yrðu uppvísir að kynþáttahatri fengju ekki að ferðast með vélum félagsins.
Það mál sem vakti þó sennilega mesta athygli hjá Ryanair á liðnu ári var mynd af heilli flugáhöfn félagsins þar sem hún lá og virtist sofa á gólfi spænsks flugvallar í nóvember. Myndin fór víða á samfélagsmiðlum, en áhöfnin var strand á flugvelli í Malaga á Spáni eftir að flugvél sem átti að flytja þau til Portó í Portúgal var beint annað.
Stéttarfélag áhafnarinnar sagði þau hafa sofið á gólfinu og hvorki fengið vott né þurrt frá vinnuveitendum sínum. Ryanair sagði myndina þó sviðsetta og fullyrti félagið að enginn hefði sofið á gólfinu, heldur hefði áhöfnin verið færð yfir í VIP-setustofu.
„Vegna óveðurs í Portó var fjölda flugvéla beint til Malaga,“ sagði í yfirlýsingu frá Ryanair vegna málsins. „Þar sem þetta var almennur frídagur á Spáni voru hótel fullbókuð,“ sagði félagið einnig.
Sex úr áhöfninni voru reknir úr starfi vegna málsins, vegna fjölmiðlaumfjöllunar um myndina, sem hefði skaðað orðspor fyrirtækisins.