Verslanir Toys'R'Us á Íslandi verða opnar út janúar í það minnsta segir Sigurður Þorgeir Jónasson, verslunarstjóri Toys'R'Us á Smáratorgi. Hann er ekki viss um hvað gerist í næsta mánuði.
Top-Toy, danskt móðurfélag leikfangakeðjunnar Toys ‘R’ Us á Íslandi sem og annars staðar á Norðurlöndunum, var úrskurðað gjaldþrota milli jóla og nýárs.
Sigurður bíður frekari upplýsinga að utan en segir að íslensku verslanirnar haldi áfram sínu striki nema skilaboð berist frá Danmörku um annað.
„Það er verið að vinna í málinu bara [í Danmörku]. Búðirnar á Íslandi eru ekki farnar á hausinn þannig að þær halda bara áfram,“ segir Sigurður Þorgeir í samtali við mbl.is.
Viðskiptavinir Toys ‘R’ Us á Íslandi hafa verið hvattir til að nýta gjafakortin sín á meðan það er hægt.