Arctic Adventures hf. og Icelandic Tourism Fund (ITF) hafa gert samkomulag um sameiningu Into the Glacier ehf. og Arctic Adventures. ITF hefur einnig selt Arctic Adventures hluti í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu sem eru með starfsemi víðs vegar um landið; Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, Raufarhólshelli, Borea Adventures á Ísafirði og leiksýningunni „Icelandic Sagas - The greatest hits“ sem sýnd er í Hörpu.
Morgunblaðið greindi frá fyrirhuguðum kaupum Arctic á fyrirtækjunum fimm í síðustu viku.
Í tilkynningu frá Arctic adventures er haft eftir Jóni Þór Gunnarssyni forstjóra að markmiðið sé að skapa öflugt og samkeppnishæft félag sem sé betur í stakk búið að takast á við alþjóðlega samkeppni sem íslensk ferðaþjónusta á í. „Afþreying fyrir ferðafólk er lykilþáttur í íslenskri ferðaþjónustu og eiga fyrirtækin í þessum geira í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni. Með sameiningu við Into the Glacier og kaupum í fjórum öðrum fyrirtækjum getur Arctic Adventures nú boðið upp á þjónustu í beinu samstarfi við ferðþjónustuaðila í öllum landshlutum sem skiptir okkur miklu máli,“ er haft eftir honum.
Helgi Júlíusson, framkvæmdastjóri ITF, segir jafnframt í tilkynningunni að salan sé í takt við markmið sjóðsins um að byggja upp öflug ferðaþjónustufyrirtæki.
Samkomulagið um sameiningu Arctic Adventures og Into the Glacier felur í sér að Arctic Adventures hf. kaupir alla hluti í Into the Glacier ehf. af Icelandic Tourism Fund (ITF) og Sigurði Skarphéðinssyni framkvæmdastjóra Into the Glacier. Kaupverðið er greitt með hlutum í Arctic Adventures hf. sem þýðir að við sameininguna verða ITF og Sigurður Skarphéðinsson hluthafar í sameinuðu félagi. Viðskiptin byggja á mati fyrirtækjaráðgjafar Kviku á verðmæti fyrirtækjanna. Í bókum ITF var 96% hlutur í Into the Glacier metinn á 1,5 milljarða.
ITF átti auk þess 70% hlut í Óbyggðasetrinu á Egilsstöðum, 60% hlut í Borea Adventures á Ísafirði og 38% hlut í Raufarhólshelli. Þeir hlutir eru meðal þess sem seldir eru til Arctic Adventures auk hlutar IFT í „Icelandic Sagas - The greatest hits“ sýningunni í Hörpu.
Samanlögð velta Arctic Adventures og Into the Glacier árið 2018 er samkvæmt tilkynningunni tæplega 7 milljarðar króna og hjá þeim starfa um 300 manns. Viðskiptavinir Arctic Adventures voru 250.000 á árinu og 63.000 manns heimsóttu íshellinn.
Samkvæmt ársreikningi Icelandic Tourism Fund voru hluthafar sjóðsins níu í árslok 2017. Stærstan eignarhlut átti Icelandair Group með 29,13%, Landsbankinn með 19,9%, Lífeyrissjóður verslunarmanna með 14,56%, Gildi lífeyrissjóður með 9,71% líkt og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda átti 6,32%, Lífsverk lífeyrissjóður 5,81%, Festa lífeyrissjóður 2,43% og Íslenski lífeyrissjóðurinn 2,43%.