Arctic Adventures hf. stefnir á að fara á markað. Fyrirtækið hyggst efla sig í beinni sölu, netsölu, og þar þarf fjárfestingu, segir forstjóri félagsins. Við samrunann verður það eitt stærsta afþreyingarfyrirtækið í ferðaþjónustunni.
Greint var frá því að félagið hyggst sameinast Into the Glacier ehf. og það keypti einnig hluti í fjórum fyrirtækjum Icelandic Tourism Fund. Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, segir tvennt hafa skipt mestu máli í samrunanum: áform um að fara með fyrirtækið á hlutabréfamarkað og nauðsynleg stækkun til móts við erlend stórfyrirtæki.
„Við þurfum stærð til að geta keppt við risastór erlend fyrirtæki, sem eru kannski á stærð við alla ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is. „Til þess að auka söluna okkar þurftum við þessa stóru fjárfestingu.“
Hann segir fyrirtækin sem félagið hefur keypt á góðum skriði og að eigendur þeirra hafi litið það jákvæðum augum að hafa kost á að fara á markað.
Næst á dagskrá er að klára áreiðanleikakannanir, að sögn Jóns Þórs. Samruninn bíður einnig samþykkis samkeppnisyfirvalda, sem Jón Þór er bjartsýnn fyrir. „Fyrirtækið er enn tiltölulega lítill hluti af íslenskri ferðaþjónustu,“ segir hann.