„Alltaf að keppa á móti Argentínu“

Magnús Árni Skúlason hagfræðingur.
Magnús Árni Skúlason hagfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Minnkandi skuldsetning Landsvirkjunar og stærð, eða smæð, fyrirtækisins í alþjóðlegu samhengi vakti athygli hagfræðinga sem unnu skýrslu fyrir Landsvirkjun um íslenskan raforkumarkað. Skýrslan var kynnt á fundinum Orkumarkaðir í mótun; verðmætasköpun og þjóðarhagur, í dag.

„Við hugsuðum hvernig staðan er núna. Minnkandi skuldsetning Landsvirkjunar og stærð hennar vakti athygli okkar,“ segir Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics og annar skýrsluhöfunda, við mbl.is. Hann og Gunnar Haraldsson hagfræðingur unnu skýrsluna í sameiningu.

Farið var yfir hvort heppilegt geti reynst að skipta Landsvirkjun upp með það að markmiði að auka samkeppni. „Við erum ekki hlynntir því og vildum horfa á stöðuna út frá alþjóðlegum mörkuðum og sjáum að Landsvirkjun er í alþjóðlegri samkeppni,“ segir Magnús.

Hann bætti við að 80% viðskiptavina fyrirtækisins væru stórnotendur, oftar en ekki alþjóðleg fyrirtæki. 20% af starfseminni fer fram á innlendum heildsölumarkaði.

Magnús greip í líkingamál sem flestir kannast við þegar hann sá í andliti blaðamanns að hann þyrfti að skýra mál sitt aðeins betur. „Það er mikilvægt að við eigum öflugt teymi. Við færum ekki að skipta landsliðinu í fótbolta í tvö landslið,“ segir Magnús og heldur áfram að rekja boltann:

Landsvirkjun er alltaf að keppa á móti Argentínu.“ Sé litið til leikja Íslands og Argentínu er staðan jöfn þó að Landsvirkjun sé „litla liðið“.

Tækifæri til að stofna auðlindasjóð

Í skýrslunni er þeirri hugmynd velt upp að arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu á tíu árum byggt upp auðlindasjóð sem næmi 377 milljörðum króna. Er það nefnt vegna þess að ef fram sem horfir mun efnahagur Landsvirkjunar halda áfram að batna á næstu árum og þá er spurning hvernig eigi að ráðstafa þeim hagnaði sem safnast upp.

„Það eru tækifæri þarna til að stofna auðlindasjóð,“ segir Magnús. Hann segir enn fremur að ef skuldir verði frekar greiddar niður og verð haldist samkeppnishæft myndist meiri hagnaður og eigið fé í fyrirtækinu. „Þá er möguleiki að greiða verulegar fjárhæðir út úr fyrirtækinu.“

Hann bendir á að Landsvirkjun hafi verið skuldsett á uppbyggingartíma, sem má segja að hafi verið frá 1965 til 2008. Árin 2008 til 2025 megi líta á sem tíma minni virkjana. Frá 2025 sé möguleiki á að greiða fjárhæðir út, ef vel er haldið á spilunum.

Í skýrslunni er bent á að auðlindasjóðir í öðrum löndum geti orðið miklir að vöxtum og tryggt að auðlind skili arði til framtíðar þegar hún er uppurin; samanber olíulindir Norðmanna. Vatnsaflið á Íslandi er endurnýjanlegt, ólíkt olíunni, og getur því skapað arð til mjög langs tíma. 

Magnús bendir á að slíkur sjóður gæti tekist á við áskoranir sem tengjast lýðfræðilegum breytingum eins og öldrun þjóðarinnar. Hann gæti líka varið hagkerfið fyrir sveiflum á markaðsverði auðlindar á hverjum tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK