Launagreiðendum fjölgaði um 3,4% frá nóvember árið 2017 til október í fyrra og voru þeir samtals 18.230 og hafði fjölgað um 602 á tímabilinu. Greiddu launagreiðendur samtals 193.600 einstaklingum laun í október og hafði fjölgað í þeim hópi um 6.200 á sama tímabili, eða 3,3%.
Sumarið 2018 voru álíka margir launþegar í ferðaþjónustu og sumarið áður. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2009 sem fjöldi launþega í ferðaþjónustu eykst ekki mikið milli ára. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.
Mest hlutfallsleg fjölgun var í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, en þar fjölgaði starfsmönnum um 5,1%, eða 700 manns. Í framleiðslu, annarri en fiskvinnslu, fjölgaði um 3,4% eða 600 manns og í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu fjölgaði um 3,3% eða 1.300 starfsmenn.
Í sjávarútvegi fækkaði starfsfólki um 5,6% eða sem nemur 500 manns, í tækni- og hugverkaiðnaði fækkaði um 1,3%, eða 200 manns, og í smásöluverslun fækkaði um 0,7%, eða 100 manns.
Í ferðaþjónustu var fjölgunin frá nóvember 2017 til október í fyrra samtals 1%, eða 300 manns.