Íbúðir seldar fyrir 482 milljarða

Í nóvember voru 19% allra þinglýstra leigusamninga á landinu öllu …
Í nóvember voru 19% allra þinglýstra leigusamninga á landinu öllu vegna leigu á svæðinu vestan við Kringlumýrarbraut að Seltjarnarnesi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heildarfjöldi kaupsamninga vegna íbúðarhúsnæðis jókst um 3% árið 2018 frá fyrra ári. Þar af var 5,3% aukning á höfuðborgarsvæðinu frá árinu áður og 7,4 % í þéttbýliskjörnum næst höfuðborgarsvæðinu, auk Akureyrar. Hins vegar mælist 12,4% samdráttur á öðrum svæðum á landinu milli áranna 2017 og 2018.

Velta með íbúðir nam rúmlega 482 milljörðum króna á árinu 2018 sem er um 6,8% veltuaukning frá fyrra ári. Viðskipti með íbúðir í fjölbýli voru um 70,2% af heildaríbúðaviðskiptum árið 2018, samanborið við 67,8% árið áður og 67,2% árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Íbúðalánasjóði.

Árshækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 9,2% í nóvember. Til samanburðar hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 6%. Þetta er níundi mánuðurinn í röð þar sem árshækkun leiguverðs mælist meiri en árshækkun íbúðaverðs.

Leigumarkaður reynist vera hvað virkastur í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins. Í nóvember var 19% allra þinglýstra leigusamninga á landinu öllu vegna leigusamninga á svæðinu vestan við Kringlumýrarbraut að Seltjarnarnesi. Flestir samningar á því svæði voru vegna tveggja herbergja íbúða og var meðalfermetraverð slíkrar íbúðar rúmlega 3.000 kr.

Mikil aukning óverðtryggðra íbúðalána

Nýjustu tölur yfir ný íbúðalán heimilanna sýna að hækkun heildarupphæða óverðtryggðra lána frá mánuðinum á undan heldur áfram, líkt og verið hefur frá því í septembermánuði. Í nóvember síðastliðnum námu ný óverðtryggð íbúðalán, að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána, alls um 17,6 milljörðum króna. Þetta er stærsti einstaki útlánamánuður slíkra lána til heimila frá því að bankar hófu að bjóða slík lán að einhverju marki í byrjun árs 2010 og lífeyrissjóðir um fimm árum síðar.

Hrein ný verðtryggð íbúðalán drógust hins vegar í heild saman um 2,9 milljarða króna í nóvember, þ.e.a.s. umfram- og uppgreiðslur eldri verðtryggðra íbúðalána voru hærri en ný verðtryggð lán heimilanna sem þeirri upphæð nemur. Hlutdeild óverðtryggðra lána var því um 120% í hreinum nýjum íbúðalánum fjármálastofnana til heimilanna í nóvember.

Hagstæðustu verðtryggðu lánin bera 2,5% vexti

Ef horft er til þróunar vaxta á verðtryggðum íbúðalánum á undanförnum mánuðum kemur í ljós að vextir hafa annaðhvort staðið í stað eða lækkað um allt að 0,2 prósentustig frá því í september síðastliðnum, að undanskildum einum lánveitanda. Sú þróun hefur þó aðeins verið á lánum með breytilega vexti þar sem fastir verðtryggðir vextir sem í boði eru út lánstímann hafa heilt yfir verið óbreyttir frá því í september 2017. Hagstæðustu breytilegu vaxtakjörin á verðtryggðum lánum til heimilanna sem í boði eru um þessar mundir eru um 2,5% en 3,5% á föstum vöxtum út lánstímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK