Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið var til umfjöllunar á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í morgun. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Lárus Blöndal, formaður starfshóps um hvítbók, ræddu við fundargesti.
Meðal þess sem kemur fram í hvítbókinni, sem kynnt var í desember, er hvatning til stjórnvalda að huga að því að losa um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum með heildstæðum hætti. Bjarni lét hafa eftir sér á dögunum að ríkið verði að draga sig úr umfangsmiklu eignarhaldi á bönkunum, selja Íslandsbanka og halda eftir 35-40% hlut í Landsbankanum.
Lárus sagði í samtali við mbl.is þegar skýrslan var kynnt að nefndin sem vann hvítbókina hafi fyrst og fremst lagt áherslu á að vegferðin um sölu í hlut á bankanum hefjist. Ekki sé lagt mat á hversu langt skuli ganga eða hratt.
Einnig tók Lárus fram að regluverkið væri allt annað nú en það var rétt fyrir hrun og einnig allt annað en þegar bankarnir voru einkavæddir í upphafi aldarinnar.
Bjarni hefur óskað eftir því að efnt verði til umræðu á Alþingi um efni skýrslunnar í upphafi vorþings.