Samtals ætlar Reykjavíkurborg að veita tæplega 1,9 milljörðum króna til uppbyggingar íþrótta-, menningar- og skólamannvirkja í Úlfarsárdal á þessu ári. Uppbygging íþrótta- og menningarmiðstöðvar hefur lengi verið í pípunum, en uppbygging hverfisins fór í baklás eftir fjármálahrunið árið 2008 og var meðal annars dregið talsvert úr upphaflegum áformum um uppbyggingu fyrir íþróttafélagið Fram á svæðinu auk þess sem framkvæmdunum var frestað.
Árið 2013 var kynnt um opna hönnunarsamkeppni fyrir íþrótta- og menningarmiðstöðina og árið 2015 fundaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með íbúum til að kynna áformaðar framkvæmdir.
Borgin hefur nú samþykkt útgjöld vegna framkvæmdanna, en á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í dag kom fram að kostnaður við íþróttamiðstöðina væri 1.300 milljónir og við menningarmiðstöðina 200 milljónir. Þá er einnig áformað að setja 382 milljónir í nýjan leik- og grunnskóla í hverfinu á þessu ári.