Ekki á móti reglum heldur með snjallri reglusetningu

Byggingargeirinn og ferðaþjónustan verða í brennidepli.
Byggingargeirinn og ferðaþjónustan verða í brennidepli. mbl.is/Eggert

Í mars næstkomandi munu sérfræðingar frá OECD í samstarfi við íslensk yfirvöld framkvæma samkeppnismat á ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Umfang þessara tveggja geira nam 15% af landsframleiðslu árið 2016. Í matinu verður gildandi regluverk greint með aðferðafræði OECD. Hin danska Ania Thiemann mun stýra matinu sem stendur yfir í átján mánuði. OECD hefur nýlega framkvæmt sambærilegt mat í Portúgal og Grikklandi.

Ríkisstjórnin og samkeppniseftirlitið sýndu því áhuga að fá slíkt samkeppnismat framkvæmt hér á landi en þar til bærir aðilar munu einnig auka þekkingu sína og getu til þess að taka á slíkum málum í framtíðinni, að sögn Thiemann.

„Þessir aðilar lýstu yfir áhuga á að fá þetta mat vegna þess árangurs sem hefur náðst í öðrum löndum,“ segir Thiemann við Morgunblaðið, sem sló á þráðinn til höfuðstöðva OECD við Boulogne-skóginn í París en OCED mun ásamt innlendum sérfræðingum framkvæma matið í samtali við hagsmunaaðila. „Við munum fara vandlega yfir regluverkið og reyna að sjá hvort gildandi reglur hamli á einhvern hátt markaðnum til að starfa á sem skilvirkastan hátt.“

Kaffiverð lækkaði um 50%

Spurð hvort neytendur muni sjá einhvern áþreifanlegan árangur af samkeppnismatinu segist Thiemann binda vonir við að svo verði. „Við reynum að reikna út kostnaðinn sem hlýst af þeim viðskiptahindrunum sem við finnum samfara þeim ábata sem hlýst af því að breyta þeim,“ segir Thiemann og tekur dæmi frá Grikklandi en OECD gerði sambærilega rannsókn þar í landi á fjórum geirum. Þar nam ábatinn af matinu um 5,2 milljörðum evra, eða sem nam 2,5% af landsframleiðslu.

„Í Grikklandi lögðum við fram tillögu um að aflétta banni á sölu á kaffi til þess að taka með, en það máttu bara kaffi- og veitingahús gera. Þegar þessu banni var aflétt lækkaði verð á kaffi um 50%. En við munum ekki horfa á kaffiverð á Íslandi en þetta er gott dæmi um það hverju litlar breytingar á regluverkinu geta skilað,“ segir Thiemann sem býst aftur á móti ekki við jafn umfangsmiklu regluverki hér á landi.

Í ljósi þess að matið hefur ekki farið fram er óljóst hvaða tillögur OECD mun gera en Thiemann telur þó að vísbendingar séu um að of flókið sé að fá byggingarleyfi hér á landi og vísar í skýrslu Alþjóðabankans.

17 skref til að fá byggingaleyfi

„Ísland er nokkuð neðarlega á lista þegar kemur að því að fá byggingarleyfi og er í 71. sæti af 180 löndum og langt á eftir helstu nágrannalöndum.“

„Fjöldi skrefa sem þarf að taka er nokkuð mikill miðað við að þetta er lítið hagkerfi. Það eru 17 skref og getur tekið allt að 84 daga. Sem er nokkuð hátt í samanburði við hátekjulönd. En við munum einnig skoða ástæðurnar fyrir því, sem geta átt rétt á sér.“ Í sambandi við ferðaþjónustuna nefnir hún áskoranir við deilihagkerfið sem stundum geti verið vandasamar.

Hún segir stóran gagnagrunn OECD vera einn af styrkleikum stofnunarinnar. „Það er ein ástæðan fyrir því að lönd leita til okkar, vegna þess að við getum byggt á þessum gögnum. Okkar mat byggist alltaf á gögnum og er að auki alltaf ráðgefandi,“ segir Thiemann.

Spurð hvort hún hafi mætt andstöðu hagsmunahópa í þeim löndum þar sem slíkt mat hefur farið fram segir Thiemann að það séu alltaf einhverjir sem hagnist á óbreyttu regluverki. „Ég held að það sé hluti af mannlegu eðli að vera hrædd við breytingar. Það eru alltaf fyrirtæki eða einstaklingar sem hagnast á kerfinu eins og það er. En við reynum að útskýra fyrir fólki að það hafi ekkert að óttast. Við höfum ekki ákveðna hugmyndafræði um það hvernig markaðurinn eigi að líta út. Við munum meta þessa tvo geira, skoða regluverkið og meta það með tilliti til þess hvert markmiðið er.“ Thiemann segir að samkeppnismat af þessu tagi hjálpi til við að leggja mat á kostnað og að gögn OECD sýni að óþarflega þungt regluverk geti virkað á sama hátt og auðhringir (e. cartel) þar sem verð er allt að því 20% hærra en það þarf að vera. „Við erum ekki að segja að reglur séu slæmar en reglusetning þarf að vera snjöll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK