Á föstudaginn í síðustu viku var haldinn stofnfundur félags um verslun í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins. Verslun lagðist af í hreppnum í haust og hafa íbúar hreppsins þurft að panta vörur og fá þær sendar með flugi, þar sem ekki er mokað að jafnaði í Árneshrepp frá áramótum til 20. mars.
Um 4.000.000 kr. söfnuðust í hlutafé og eru hluthafar tæplega 70. Sett var 100.000 kr hámark á hlutafjárkaup til að tryggja dreifða eignaraðild.
Stofnfundurinn var haldinn í húsnæði verslunarinnar í Norðurfirði. Félagið fékk nafnið Verzlunarfjelag Árneshrepps og er stefnt að því að opna með takmarkaðan afgreiðslutíma strax á vormánuðum og síðan með fullum afgreiðslutíma í sumarbyrjun.
Íbúar í Árneshreppi voru 38 samkvæmt tölum Þjóðskrár frá 1. febrúar. Í umfjöllun Morgunblaðsins í september um lokun verslunarinnar kom fram í máli Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita í Árneshreppi, að hún reiknaði með að 15-18 manns yrðu í Árneshreppi í vetur.