Fyrsta útboðið á grænum skuldabréfum Orkuveitu Reykjavíkur (OR; Reykjavík Energy) í nýjum flokki, ORG180255, verður 13. febrúar.
Skuldabréfaflokkurinn er til 36 ára, ber fasta verðtryggða vexti og verður tekinn til viðskipta á Nasdaq Iceland Sustainable Bond-markaðnum. Flokkurinn er jafngreiðsluflokkur með greiðslum höfuðstóls og vaxta á sex mánaða fresti og lokagjalddaga 18. febrúar 2055, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni.
Orkuveita Reykjavíkur hefur sett sér það markmið að smækka kolefnisspor fyrirtækisins um 60% fyrir árið 2030 og er tilgangur útgáfunnar að fjármagna þau grænu verkefni sem eru á döfinni hjá OR og dótturfyrirtækjunum – Veitum, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur.
Í tengslum við útgáfuna hefur OR sett sér grænan ramma – Reykjavik Energy Green Bond Framework. Græni ramminn fylgir svokölluðum „green bond principles“, viðmiðum útgefnum af ICMA, Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði.